1811073
Eigendur hafa lagt fram tillögu að breytingu á gildandi deiliskipulagi dags. 13.9.2017. Nýtt deiliskipulag tekur til framlengingar aðkomuvegar, afmörkunar 6 nýrra lóða í stærðum frá 3,7 ha til 5,9 ha og byggingareita fyrir íbúðarhús, gestahús og hesthús. Nýjar lóðir fái nafnið Grenjar 4-10. Tillagan var auglýst frá 14.12.2018 til og með 30.1.2019. Ábendingar bárust frá Umhverfisstofnun þess efnis að á svæðinu væru vistgerðir sem þarfnast verndar og að komi fram í tillögunni að vistgerðum verði ekki raskað. Ábending barst frá Minjastofnun um að sýna þurfi útlínur á vörslugarði, sem sýndur var á eldri uppdrætti en fallið hefur út við gerð nýs uppdráttar. Jafnframt barst ábending frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands um að leitast skuli við að fráveita verði lögð í sameiginleg hreinsivirki eftir því sem við verði komið. Skipulagsnefnd fjallaði um framkomnar athugasemdir á síðasta fundi nefndarinnar þar sem lögð var áhersla á að umræddum vistgerðum væri ekki raskað að óþörfu. Með því taldi nefndin að búið væri að bregðast við öllum framkomnum athugasemdum að fullu. Í afgreiðslu Skipulagsstofnunar með bréfi dags. 7. mars 2019 kom fram að sýna þurfi fram á frekari rannsóknir um tilvist og staðsetningu á umræddum vistgerðum sem taldar voru upp í umsögn Umhverfisstofnunar dags. 7.1.2019. Skipulagsfulltrúi sendi Umhverfisstofnun tölvupóst dags. 14.3.2019 þar sem óskað var eftir staðfestingu á að rök nefndarinnar frá fundi hennar 11.2.2019 hefðu orðið til þess að breyta umsögn Umhverfisstofnunar úr neikvæðri í jákvæða. Í svari Umhverfisstofnunar dags. 1.4.2019 kemur fram að stofnunin telji það afar óljóst hvað skipulagsnefndin á við með að umræddum vistgerðum verði ekki raskað að óþörfu. Í viðbótarsvari stofnunarinnar kemur ekki fram með hvaða hætti möguleiki sé að bregðast við nema vísað í eldra svar sitt um að frekari rannsókna sé þörf á svæðinu.