13. fundur 06. maí 2019 kl. 16:00 - 18:30 Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Haraldur Birgir Haraldsson
  • Haraldur Eiríksson
  • Hulda Karlsdóttir
  • Sævar Jónsson
  • Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
  • Yngvi Harðarson
Fundargerð ritaði: Birgir Haraldsson Skipulags- og byggingarfulltrúi
Ráðgjafarnir Ásgeir Jónsson og Ingibjörg Sveinsdóttir frá Eflu fara yfir fram komnar umsagnir.

1.Endurskoðun aðalskipulags Rangárþings ytra

1305001

Tillaga að aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028 var send Skipulagsstofnun 18.12.2018. Skipulagsstofnun óskaði eftir frekari gögnum og voru þau send stofnuninni 7.1.2019. Tilkynning um tafir á afgreiðslu stofnunarinnar var send með tölvupósti dags. 12.2.2019 og var ástæða tafa mikið verkefnaálag hjá stofnuninni. Önnur tilkynning um tafir á afgreiðslu barst með tölvupósti dags. 4.3.2019 þar sem ástæða tafa var sú að kallað hefði verið eftir umsögn Náttúrufræðistofnunar og Vegagerðarinnar vegna stefnu aðalskipulagsins hvað varðar færslu Landmannaleiðar/Dómadalsleiðar. Afgreiðsla stofnunarinnar barst með bréfi dags. 8.4.2019 þar sem gerðar eru athugasemdir og ábendingar sem þarfnast umfjöllunar.
Skipulagsnefnd fjallaði um allar framkomnar athugasemdir. Nefndin, með aðstoð ráðgjafa, tók saman lista yfir viðbrögð við athugasemdum. Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að senda lagfærða tillögu til Skipulagsstofnunar eftir lagfæringu frá ráðgjöfum.
Ráðgjöfunum Ásgeiri og Ingibjörgu þökkuð góð yfirferð þegar þau yfirgefa fundinn.
Ráðgjafar sitja fyrir svörum.

2.Gaddstaðir íbúðasvæði í stað frístundasvæðis

1802002

Rangárþing ytra hefur samþykkt að gera breytingar á landnotkun í aðalskipulagi fyrir 28 lóðir úr Gaddstöðum þar sem umrætt svæði er breytt úr frístundasvæði í íbúðasvæði. Lögð er fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir svæðið þar sem skilmálar hafa verið skilgreindir að nýju. Skipulagið tekur til alls svæðisins. Íbúafundur var haldinn fyrir hlutaðeigandi aðila á svæðinu dags. 6.4.2019 þar sem mættu rétt um 30 manns. Ábendingar hafa verið teknar inní tillöguna.
Skipulagsnefnd telur að búið sé að taka tillit til allra ábendinga og athugasemda frá lóðarhöfum á svæðinu. Nefndin samþykkir því fram lagða tillögu og leggur til að hún verði auglýst skv. 41. grein skipulagslaga nr. 123/2010.
Ráðgjöfum þökkuð góð yfirferð.

3.Fagrahlíð, landskipti

1904042

Arnheiður Guðmundsdóttir óskar eftir að fá að skipta landi sínu, Fögruhlíð, L199262 upp í tvær spildur. Nýja spildan fengi nafnið Bjalladalur og yrði 6,3 ha að stærð með LXXXXXX. Spildan sem eftir verður fengi nafnið Fagrasel og yrði 3,2 ha að stærð með LXXXXXX.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við áformuð landskipti né fyrirhuguð heiti á spildum.

4.Snjallsteinshöfði 1C ofl. Deiliskipulag

1905006

Landeigendur þriggja spildna úr landi Snjallsteinshöfða, Snjallsteinsghöfði 1C, Ytrivöllur og Stekkatún, óska eftir heimild til að leggja fram deiliskipulag af svæðum sínum. Gert verði ráð fyrir þremur byggingareitum á hverri lóð fyrir íbúðarhús, geymslu og gestahúsum.
Skipulagsnefnd leggur til að veitt verði heimild til deiliskipulagsgerðar. Nefndin telur að tillagan samræmist stefnu aðalskipulagsins og því sé ekki þörf á kynningu lýsingar. Nefndin samþykkir fyrirliggjandi tillögu og leggur til að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

5.Lunansholt 1I. Deiliskipulag

1902036

Eigendur Lunansholts 1I hafa lagt fram tillögu að deiliskipulagi fyrir land sitt. Skipulagið tekur til byggingar frístundahúss, skemmu og gestahúsa. Aðkoma að Lunansholti 1I er af Árbæjarvegi. Tillagan var auglýst frá 20.3.2019 til og með 1.5.2019. Athugasemd barst frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands um að gera þyrfti grein fyrir verndarsvæði kringum vatnsból. Einnig barst athugasemd frá Minjastofnun vegna fornminja á fyrirhuguðum byggingarstað.
Skipulagsnefnd fjallaði um framkomnar athugasemdir. Lögð er fram lagfærð tillaga þar sem búið er að taka tillit til framkominna athugasemda. Nefndin telur að búið sé að bregðast við öllum framkomnum athugasemdum og leggur til að tillagan verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu.

6.Lækjartúnslína 2. MÁU

1902040

Landsnet hf hefur sent Skipulagsstofnun tilkynningu um framkvæmdina Lækjartúnslínu 2 skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Eftir umsagnarferli hefur Skipulagsstofnun sent frá sér ákvörðun um matskyldu þar sem umrædd framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Lagt fram til kynningar

7.Klettamörk deiliskipulag

1904055

Lóðarhafi hefur óskað eftir að fá að leggja fram tillögu að deiliskipulagi fyrir lóða sína. Áform eru uppi um að reist verði alls 8 gistiskálar til útleigu, ásamt íbúðarhúsi til íveru. Breytingar á landnotkun í aðalskipulagi eru í lokaferli.
Skipulagsnefnd leggur til að veitt verði heimild til deiliskipulagsgerðar. Á grunni þess að tillagan muni samræmast stefnu aðalskipulags Rangárþings ytra 2016-2028 við gildistöku þess sé ekki þörf á að kynna lýsingu. Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og leggur til að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um að auglýst tillaga verði í fullu samræmi við aðalskipulag Rangárþings ytra 2016-2028 sem er í lokaferli.

8.Þjóðólfshagi L222499. Breyting á deiliskipulagi

1811073

Eigendur hafa lagt fram tillögu að breytingu á gildandi deiliskipulagi dags. 13.9.2017. Nýtt deiliskipulag tekur til framlengingar aðkomuvegar, afmörkunar 6 nýrra lóða í stærðum frá 3,7 ha til 5,9 ha og byggingareita fyrir íbúðarhús, gestahús og hesthús. Nýjar lóðir fái nafnið Grenjar 4-10. Tillagan var auglýst frá 14.12.2018 til og með 30.1.2019. Ábendingar bárust frá Umhverfisstofnun þess efnis að á svæðinu væru vistgerðir sem þarfnast verndar og að komi fram í tillögunni að vistgerðum verði ekki raskað. Ábending barst frá Minjastofnun um að sýna þurfi útlínur á vörslugarði, sem sýndur var á eldri uppdrætti en fallið hefur út við gerð nýs uppdráttar. Jafnframt barst ábending frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands um að leitast skuli við að fráveita verði lögð í sameiginleg hreinsivirki eftir því sem við verði komið. Skipulagsnefnd fjallaði um framkomnar athugasemdir á síðasta fundi nefndarinnar þar sem lögð var áhersla á að umræddum vistgerðum væri ekki raskað að óþörfu. Með því taldi nefndin að búið væri að bregðast við öllum framkomnum athugasemdum að fullu. Í afgreiðslu Skipulagsstofnunar með bréfi dags. 7. mars 2019 kom fram að sýna þurfi fram á frekari rannsóknir um tilvist og staðsetningu á umræddum vistgerðum sem taldar voru upp í umsögn Umhverfisstofnunar dags. 7.1.2019. Skipulagsfulltrúi sendi Umhverfisstofnun tölvupóst dags. 14.3.2019 þar sem óskað var eftir staðfestingu á að rök nefndarinnar frá fundi hennar 11.2.2019 hefðu orðið til þess að breyta umsögn Umhverfisstofnunar úr neikvæðri í jákvæða. Í svari Umhverfisstofnunar dags. 1.4.2019 kemur fram að stofnunin telji það afar óljóst hvað skipulagsnefndin á við með að umræddum vistgerðum verði ekki raskað að óþörfu. Í viðbótarsvari stofnunarinnar kemur ekki fram með hvaða hætti möguleiki sé að bregðast við nema vísað í eldra svar sitt um að frekari rannsókna sé þörf á svæðinu.
Skipulagsnefnd hefur fjallað um fram komin samskipti við Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun. Nefndin telur enga þörf á frekari rannsóknum á umræddu svæði og telur að áformaðar byggingar raski í engu þeim vistgerðum sem fram hafa komið í umsögn Umhverfisstofnunar og nefndin taldi sig hafa fært rök fyrir í síðustu bókun sinni. Nefndin ítrekar því fyrri bókun sína um að umræddum vistgerðum verði ekki raskað ásamt því að bent skal á í greinargerð að á skipulagssvæðinu séu, samkvæmt vistgerðarkorti Náttúrufræðistofnunar Íslands, vistgerðirnar starungsmýravist og víðikjarrvist sem eru a lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnist verndar. Þeim vistgerðum verði ekki raskað. Með þessari afgreiðslu telur nefndin að búið sé að koma til móts við athugasemdir Umhverfisstofnunar frá 7.1.2019 að fullu og leggur til að tillagan verði send til Skipulagsstofnunar til endanlegrar afgreiðslu.

9.Gaddstaðir lóðir 34 og 35. Breyting á byggingareitum

1905005

Haraldur Guðmundsson eigandi að lóðum nr. 34 og 35 við Gaddstaði óskar eftir að mörk byggingareita lóða sinna að vestanverðu verði færðir allt að 40 metra vestar, þ.e. innar í skipulagðan skóginn. Ástæðan er sú að vegna vatnsrásar í landinu er ekki hægt að staðsetja byggingar skv. núverandi skipulagi. Einnig er lægð í landi en land hækkar töluvert þegar vestar kemur og því ákjósanlegra að byggja þar en niðri í lægðinni.
Skipulagsnefnd frestar erindi umsækjanda.

10.Árbæjarhjáleiga 2. Deiliskipulag

1904020

Eiríkur V. Sigurðarson hefur fengið heimild til að fá að leggja fram deiliskipulag af svæði úr jörðinni Árbæjarhjáleigu 2. Gert verði ráð fyrir íbúðarhúsi til viðbótar því sem fyrir er ásamt 2-4 starfsmannahúsum sem samhliða geta nýst til ferðaþjónustu. Aðkoma er frá Árbæjarvegi. Lögð er fram lýsing skipulagsáforma.
Skipulagsnefnd samþykkir fram lagða lýsingu en telur þörf á að kynna hana fyrir nærliggjandi landeigendum. Kynningartími skal vera tvær vikur.

Fundi slitið - kl. 18:30.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?