28. fundur 20. júlí 2020 kl. 13:00 - 14:30 Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Haraldur Birgir Haraldsson
  • Haraldur Eiríksson
  • Hulda Karlsdóttir
  • Sævar Jónsson
  • Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
  • Yngvi Harðarson
Fundargerð ritaði: Birgir Haraldsson Skipulags- og byggingarfulltrúi

1.Hjallanes 2 og 3. Landskipti

2006058

Landeigandi óskar eftir að fá að skipta upp jörð sinni á þann veg að annars vegar úr jörðinni Hjallanesi 2, L164978, skiptist um 722 m2 spilda sem á að sameinast í Hjallanes 3, L210730. Eftir verður Hjallanes 2 um 78.638,5 m2 að stærð eða um 7,9 ha.
Hins vegar á að skipta 111,6 ha úr Hjallanesi 3. Ný spilda fær landeignanúmerið L230275 og heitið Hjallanes 3A (B á uppdrætti). Eftir stendur Hjallanes 3, L210730, með stærðina 111,7 ha eftir að 722 m2 lóðin hefur sameinast henni. Hjallanes 3 heldur upprunalandeignanúmeri sínu. Meðfylgjandi eru uppdrættir dags. 17.7.2020 frá Eflu verkfræðistofu sem sýna skiptin.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við áformuð landskipti né áformuð heiti.

2.Sólvellir L164553 landskipti

2007004

Eigendur Sólvalla l164553 óska eftir að fá að skipta úr jörð sinni, 3 ha spildu skv. uppdrætti frá Landnotum dags. 29.1.2018. Spildan fengi heitið Borgir og landeignanúmerið L230372.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við áformuð landskipti en vill árétta að leita þarf samþykkis allra eigenda Oddatorfunnar þar sem um óskipta sameign er að ræða. Jafnframt gerir nefndin ekki athugasemdir við áformað heiti á nýrri spildu.

3.Ármót. Landskipti

2007029

Óskað er eftir staðfestingu sveitarstjórnar á landskiptum úr jörðinni Ármót, þar sem skipt er út 20 ha lóð. Lóðin fengi heitið Ármót 2 og landeignanúmerið Lxxxxxx. Ármót yrði 125,8 ha að stærð eftir skiptin.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við áformuð landskipti né fyrirhugað heiti á lóð.

4.Skáldabúðir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Áform um vindorkugarð. Beiðni um umsögn

2006049

Óskað er eftir umsögn Rangárþings ytra vegna meðfylgjandi skipulags- og matslýsingu aðalskipulagsbreytingar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fyrir vindorkugarða í Skáldabúðum L166594. Í breytingunni felst skilgreining á mögulegum vindorku virkjanakosti í landi Skáldabúða undir heitinu Hrútmúlavirkjun.
Skipulagsnefnd gerir engar athugasemdir við fyrirhugaða uppbyggingu.

5.Landsvirkjun. Göngu og reiðbrú yfir Þjórsá við Þjófafoss. Framkvæmdaleyfi

2007007

Landsvirkjun óskar eftir framkvæmdaleyfi vegna byggingar göngu- og reiðbrúar yfir Þjórsá um 800 m ofan við Þjófafoss. Fyrirhuguð framkvæmd liggur við suðurenda Búrfells rétt sunnan við Búrfellsskóg.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimild verði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli heimilda innan aðalskipulags Rangárþings ytra þar sem skilgreind er göngu- reið- og reiðhjólaleið á umræddu svæði.
Niðurstaða nefndarinnar er að göngu-, reið- og reiðhjólaleið yfir þjórsá á umræddum stað sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

6.Hrafntinnusker Úrlausn fráveitumála

2007013

Ferðafélag Íslands og verkfræðistofan EFLA hafa unnið að lausnum fráveitumála sem þykja ákjósanlegastar fyrir Höskuldsskála í Hrafntinnuskeri. Hugmynd að nýrri og bættri fráveitulausn er lýst í minnisblaðinu í viðhengi.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við fyrirhugaðar aðgerðir og telur að með þessari framkvæmd séu mótvægisaðgerðir í fullu samræmi við áherslur um hreinsun á þessum stað.

7.Rauðufossar - göngustígur

2007017

Hákon Ásgeirsrson sækir um framkvæmdaleyfi fyrir hönd Umhverfisstofnunar til viðhalds og uppbyggingar á u.þ.b. 1,6 km löngum göngustíg frá bílastæðum og að Rauðufossum. Lega stígarins verður breytt að hluta en á þeim kafla sem það er gert er lítið sem ekkert rask þar sem stígurinn liggur núna og verður það afmáð. Gróðurþekja verður tekin ofan af stígnum þar sem hann á að liggja og gróðurinn notaður til að græða upp önnur sár á svæðinu. Undir gróðurþekjunni er malarefni sem nýtist í stíginn þannig að ekki þarf að flytja malarefni á staðinn. Breidd stígarins verður 80-90 cm. Í þessum fyrsta áfanga verður ekki gerður útsýnispallur. Sjá nánari lýsingu í meðfylgjandi framkvæmdarlýsingu
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimild verði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli heimilda innan aðalskipulags Rangárþings ytra.
Niðurstaða nefndarinnar er jafnframt að framkvæmd við göngustíg á umræddum stað sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

8.Þjóðólfshagi 28. Ósk um breytingu á landnotkun í aðalskipulagi

2006048

Eigandi lóðar nr. 28 í landi Þjóðólfshaga óskar eftir að landnotkun lóðar sinnar verði breytt úr frístundanotkun í íbúðarbyggð eða landbúnað að nýju, þar sem áform eru uppi um skráningu lögheimilis á lóðinni.
Skipulagsnefnd leggur til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi svo áform umsækjanda geti orðið að veruleika. Nefndin telur að staðsetning umræddrar lóðar sé vel til þess fallin að bætast við þær lóðir sem þegar hafa verið samþykktar til sams konar breytinga, þar sem lóðin er í jaðri skipulagssvæðisins.

9.Höfuðból Leirubakki. Breyting á deiliskipulagi

2006051

Eigandi Rangársléttu og lóða nr. 111 og 112 við Höfuðból úr landi Leirubakka, óskar eftir að fá að breyta legu og afmörkun lóðar nr. 112 skv. uppdrætti frá Landformum dags. 22.6.2020. Gerð verði breyting á gildandi deiliskipulagi dags. 15.5.2008.
Skipulagsnefnd telur að umrædd breyting sé ekki þess eðlis að hún hafi áhrif á aðra en eiganda og sveitarfélagið. Því er það mat nefndarinnar að um óverulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða. Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og leggur til að hún verði send til vörslu skipulagsstofnunar skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

10.Borgir úr landi Sólvalla. Deiliskipulag

2007005

Eigendur Sólvalla L164553 óska eftir að fá að leggja fram deiliskipulag af spildu úr jörð sinni. Spildan heitir Borgir og er áformað að byggja íbúðarhús, bílskúr og gestahús á lóðinni.
Skipulagsnefnd leggur til að veitt verði heimild til deiliskipulagsgerðar þegar samþykki um áformuð landskipti á umræddri lóð liggja fyrir. Nefndin telur að áformin samræmist stefnu aðalskipulagsins og því sé ekki þörf á kynningu lýsingar.

11.Landmannahellir. Breyting á deiliskipulagi

2007003

Hákon Ásgeirsson fyrir hönd Umhverfisstofnunar óskar eftir að gildandi deiliskipulag fyrir Landmannahelli verði endurskoðað í samráði við og með aðkomu sveitarfélagsins. Nýjar áherslur hafa komið fram um stjórnun og verndun friðlandsins með tilkomu gerð stjórnunar- og verndaráætlunar sem er í vinnslu og unnin er í samvinnu við sveitarfélagið. Um er að ræða að gera bílastæði sem þörf er á á svæðinu ásamt því að gera áningasvæði við tjaldsvæðið með fræðslu og upplýsingaskiltum um friðlandið og gönguleiðir út frá Landmannahelli. Einnig er ráðgert að gera skipulag á tjaldsvæðinu sjálfu þar sem aðgreint verður svæði fyirr tjöld annars vegar og húsbíla og fellihýsi hinsvegar.
Skipulagsnefnd leggur til að veitt verði heimild til breytingar á gildandi deiliskipulagi fyrir Landmannahelli. Þar sem óskir hafa komið fram frá fleiri aðilum á svæðinu um breytingar skuli kallað eftir samvinnu annarra rekstraraðila á svæðinu og gerð heildarbreyting.

12.Lækur 3. Ósk um breytingu á landnotkun

2007014

Nói Sigurðsson og Kristborg Hafsteinsdóttir óska eftir að fá að flytja lögheimili sitt á lóð sína, Læk 3 við Reyðarvatn. Umrædd lóð er innan skilgreinds frístundasvæðis merkt F56 í aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028 og er óskað eftir að landnotkun lóðarinnar verði breytt í íbúðarsvæði eða landbúnaðarsvæði til að áform um lögheimili geti gengið eftir.
Skipulagnsnefnd telur að ekki séu nægar forsendur fyrir því að gera breytingu á landnotkun á lóðum innan skilgreindra frístundasvæða ef þær liggja ekki að jaðri viðkomandi svæðis og verða þar með umluktar frístundalóðum. Jafnframt er fjarlægð frá næsta héraðsvegi meiri en ákvæði aðalskipulagsins bera með sér, en þar segir að föst búseta skuli að jafnaði ekki heimiluð fjær stofn-, tengi- eða héraðsvegum en 2 km.
Nefndin getur því ekki fallist á ósk umsækjanda.

13.Lækur 7. Ósk um breytingu á landnotkun.

2007015

Haraldur Ágústsson og Ingigerður Ólafsdóttir óska eftir að fá að flytja lögheimili sitt á lóð sína, Læk 7 við Reyðarvatn. Umrædd lóð er innan skilgreinds frístundasvæðis merkt F56 í aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028 og er óskað eftir að landnotkun lóðarinnar verði breytt í íbúðarsvæði eða landbúnaðarsvæði til að áform um lögheimili geti gengið eftir.
Skipulagnsnefnd telur að ekki séu nægar forsendur fyrir því að gera breytingu á landnotkun á lóðum innan skilgreindra frístundasvæða ef þær liggja ekki að jaðri viðkomandi svæðis og verða þar með umluktar frístundalóðum. Jafnframt er fjarlægð frá næsta héraðsvegi meiri en ákvæði aðalskipulagsins bera með sér, en þar segir að föst búseta skuli að jafnaði ekki heimiluð fjær stofn-, tengi- eða héraðsvegum en 2 km.
Nefndin getur því ekki fallist á ósk umsækjanda.

14.Haukadalur lóð F7. Breyting á deiliskipulagi.

2007018

Eigendur lóðar nr. F7 í Haukadal óska eftir að fá að gera breytingar á gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið dags. 19.2.2009 þar sem suður- og vesturmörk núverandi byggingareits verði færð og byggingareitur stækkaður skv. uppdrætti og greinargerð frá Eflu.
Skipulagsnefnd samþykkir að veita heimild til breytingar á gildandi deiliskipulagi dags. 19.2.2009. Skipulagsnefnd samþykkir jafnframt framlagða tillögu og leggur til að hún verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

15.Haukadalsmelur, deiliskipulag

2003024

Árið 2006 vann Landslag ehf. fyrir hönd Höfðalækjar ehf. tillögu að deiliskipulagi fyrir jörðina Haukadal í Rangárþingi ytra. Á svæðinu var fyrir lendingarstaður fyrir flugvélar en gert var ráð fyrir þremur flugskýlum og félagsheimili auk 22 lóða fyrir frístundahús í deiliskipulaginu.
Tillaga að deiliskipulagi fór í lögbundið auglýsingar- og kynningarferli og var samþykkt í sveitarstjórn
4. apríl 2007. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda eins og
lög gera ráð fyrir og því hefur deiliskipulagið aldrei öðlast formlegt gildi. Þrátt fyrir það hefur verið
byggt á svæðinu í samræmi við deiliskipulagið og eru sex frístundahús þegar byggð á svæðinu auk eins flugskýlis.
Vegna þessa hefur deiliskipulagið nú verið tekið upp að nýju. Gögn deiliskipulags hafa verið uppfærð í samræmi við viðeigandi lög og reglugerðir auk þess sem tekið er tillit til umsagnar Skipulagsstofnunar sem barst við samþykkt deiliskipulag árið 2007. Ný og endurbætt tillaga var auglýst frá 22.4.2020 til og með 3.6.2020.
Skipulagsnefnd fjallaði um fram komnar athugasemdir og leggur til að tillagan verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu þegar búið er að taka tillit til athugasemda Minjastofnunar.

16.Árbakki, breyting á deiliskipulagi

2004011

Eigendur Árbakka L164961 óska eftir að fá að gera breytingar á gildandi deiliskipulagi dags. 17.10.2007. Deiliskipulagsreitur er stækkaður til norðurs (svæði 5) og nær nú líka yfir land Snjallssteinshöfða 1B, L223327 sem er um 57ha. Það land er nú orðið í eigu eigenda Árbakka. Svæði 5 er skipt niður í 5 smábýlalóðir sem eru á bilinu 10ha - 13,8ha. Frístundalóðir nr. 6, 7, 8, 9, 10, 11 og 12, syðst á svæði 1 (F7), eru felldar niður og er það gert vegna fornminja sem þar finnast og landeigendur vilja koma í veg fyrir að byggt verði innanum þær í fjarlægri framtíð. Tillaga var auglýst frá 22.4.2020 til og með 3.6.2020.
Skipulagsnefnd fjallaði um fram komnar athugasemdir og leggur til að tillagan verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu þegar búið er að taka tillit til athugasemda Minjastofnunar.

17.Breyting á vegum innan og í nágrenni Friðlands að Fjallabaki

2006057

Tillaga Umhverfisstofnunar um breytingar á vegum í og í nágrenni við Friðland að Fjallabaki. Tillagan var unnin í samráði við Veiðifélag Landmannaafréttar, fulltrúa Fjallskilanefndar Landmannaafréttar og fulltrúa Rangárþings ytra í samstarfsnefnd um gerð stjórnunar og verndaráætlunar Friðlands að Fjallabaki
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við viðkomandi breytingar og tillögur að nýjum leiðum og leggur til að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á aðalskipulagi þar sem viðkomandi leiðir verða settar inn og skilgreindar.

18.Hagakrókur. Deiliskipulag

2001024

Hróar Magnússon og Jónína Jónsdóttir hafa lagt fram tillögu að deiliskipulagi af spildu sinni, Hagakróki, L225766. Áform eru um byggingu íbúðarhúss, hesthúss, skemmu og gestahúsa. Tillagan var auglýst frá 20.5.2020 til og með 1.7.2020.
Skipulagsnefnd fjallaði um fram komnar athugasemdir og leggur til að tillagan verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu þegar búið er að taka tillit til athugasemda Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.

19.Minna Hof breyting á landnotkun íbúðasvæði

2002027

Sveitarstjórn samþykkti á fundi dags. 13.2.2020 að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á landnotkun í aðalskipulagi þar sem núverandi landbúnaðarsvæði verði gert að íbúðasvæði. Sóst var eftir umsögn frá Búnaðarsambandi Suðurlands og liggur það fyrir dags. 6.5.2020. Þá liggur fyrir samþykki Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fyrir að breyta landnotkun á svæðinu, dags. 2.júní 2020. Athugasemdir bárust frá Skipulagsstofnun með bréfi dags. 12.6.2020 þar sem gerðar voru nokkrar efnislegar athugasemdir.
Skipulagsnefnd fjallaði um allar framkomnar athugasemdir. Nefndin telur að búið sé að bregðast við öllum framkomnum athugasemdum og rökstuðningur settur við viðeigandi greinar í greinargerð skipulagstillögunnar. Nefndin leggur til að tillagan verði send Skipulagsstofnun til endanlegrar afgreiðslu. Nefndin leggur áherslu á að hún telur sig hafa lagt fram rökstutt álit sitt við öllum framkomnum athugasemdum Skipulagsstofnunar og ef afgreiðsla fundarins í dag dugar ekki til að afla samþykkis stofnunarinnar til auglýsingar á tillögunni skuli tillagan auglýst skv. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem athugasemdir Skipulagsstofnunar verða jafnframt auglýstar samhliða.

20.Minna-Hof. deiliskipulag íbúðarlóða

1904019

Landeigendur hafa fengið heimild til að leggja fram deiliskipulag af svæði sínu. Deiliskipulagið nær til alls 41 lóðar í landi Minna-Hofs, landspildu 1. Lóðir fyrir íbúðabyggð eru á bilinu 1,1-3,2 ha, en flestar eru þær um 2,5-3 ha að stærð. Lögð er fram tillaga
Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og leggur til að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða auglýsingu á breytingu aðalskipulagsins.

21.Bakkaflöt. Deiliskipulag

2004005

Landeigandi að Bakkaflöt, L224483, hefur fengið heimild sveitarstjórnar til að leggja fram deiliskipulag af lóð sinni. Gert verði ráð fyrir byggingu frístundahúss ásamt tilheyrandi gestahúsi og geymslu, samanlagt allt að 128 m2. Þar sem fjarlægðir frá byggingareitum að lóðamörkum voru ekki í samræmi við skilmála skipulagsreglugerðar var óskað eftir undanþágu frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Með tölvupósti frá ráðuneytinu dags. 18.6.2020 var óskað eftir frekari upplýsingum og rökstuðningi frá sveitarstjórn þar sem í umsögn Skipulagsstofnunar vegna viðkomandi erindis var gerð athugasemd við að undanþága verði veitt, þar sem umrætt svæði myndar heildstæða einingu frístundabyggðar í aðalskipulagi og því eðlilegast að svæðið verði skipulagt sem ein heild.
Skipulagsnefnd tekur undir álit Skipulagsstofnunar um að eðlilegast væri að allar umræddar og samliggjandi lóðir innan frístundasvæðis F1 verði skipulagðar sem ein heild. Þar sem allar lóðirnar eru í eigu mismunandi aðila og alls ekki víst að áform sumra feli í sér uppbyggingu á þeim í náinni framtíð telur nefndin að forsendur liggi ekki fyrir að svo stöddu að lagt verði fram heildarskipulag. Því er það mat nefndarinnar að áform um heildarskipulag fyrir umrætt svæði sé ekki tímabært að svo stöddu.
Nefndin vill því ítreka ósk sína til ráðuneytis um að undanþága verði veitt fyrir viðkomandi lóð varðandi fjarlægð frá aðliggjandi lóðamörkum ásamt því að undanþága verði einnig veitt frá grein 5.3.2.5. vegna fjarlægðar frá vegi.

Fundi slitið - kl. 14:30.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?