49. fundur 11. apríl 2022 kl. 16:00 - 16:50 Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Haraldur Birgir Haraldsson
  • Haraldur Eiríksson
  • Hulda Karlsdóttir
  • Sævar Jónsson
  • Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
  • Yngvi Harðarson
Fundargerð ritaði: Birgir Haraldsson Skipulags- og byggingarfulltrúi

1.Bjalli 4. Landskipti.

2203096

Eigendur Bjalla 4 óska eftir að skipta upp landi sínu í samræmi við framlögð gögn málsins. Vísað er til uppdráttar frá Eflu dags. 1.3.2021 sem aðilar málsins hafa staðfest með undirritun sinni. Um tvær spildur er að ræða sem skipta á upp, annars vegar nyrðri spildan, 54,69 ha, sem skiptist í 6 parta og hins vegar syðri spildan, 27,83 ha, sem skiptist í 4 parta. Þessar 10 spildur sem til verða skiptast í framhaldinu í samræmi við 2. grein samnings á milli aðila og er hér sem hluti af fylgiskjölum málsins. 3 landeignanúmer verða stofnuð: Gamli Bjalli 2, L233536, Gamli Bjalli 3, L233537 og Gamli Bjalli 4, L233538. Bjalli 4 heldur upprunalandnúmeri og fær heitið Gamli Bjalli 1.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við áformuð landskipti né fyrirhuguð heiti á lóðum.

2.Lagning ljósleiðarastrengs frá Þorlákshöfn í Landeyjasand.

2202019

Skipulagsstofnun hefur sent frá sér álit sitt þess efnis að lagning ljósleiðarastrengs frá Þorlákshöfn að Landeyjasandi sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum
Lagt fram til kynningar

3.Hagi 2, Teigsholt. Ósk um breytingu á landnotkun

2203043

Lóðareigendur lóðanna Hagi lóð 2, L218421 og Hagi lóð, L192681 óska eftir að gerð verði breyting á núverandi skilgreiningu landnotkunar í aðalskipulagi sveitarfélagsins, þar sem núverandi frístundasvæði verði gert að landbúnaðarsvæði að nýju. Áform landeigenda er að setjast að og flytja lögheimili sitt á staðinn.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við að gerð verði breyting á landnotkun í aðalskipulagi og viðkomandi lóðum verði breytt úr frístundanotkun í landbúnaðarlóðir að nýju. Nefndin leggur því til að gerð verði tilheyrandi breyting í aðalskipulagi og óskar jafnframt eftir því við umsækjanda að hann hefji vinnu við gerð deiliskipulags fyrir lóðir sínar ef áformað er að hefja aukna uppbyggingu á þeim.

4.Háasel. Breyting á landnotkun í aðalskipulagi

2203097

Eigendur Háasels L220358 óska eftir að gerð verði breyting á landnotkun á landi sínu þar sem núverandi fríastundasvæði verði gert að landbúnaðarsvæði að nýju. Ekkert deiliskipulag liggur fyrir af svæðinu.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við að gerð verði breyting á landnotkun í aðalskipulagi og viðkomandi lóð verði breytt úr frístundanotkun í landbúnaðarlóð að nýju. Nefndin leggur því til að gerð verði tilheyrandi breyting í aðalskipulagi og óskar jafnframt eftir því við umsækjanda að hann hefji vinnu við gerð deiliskipulags fyrir lóðir sínar ef áform eru um uppbyggingu á lóðinni.

5.Geysisflatir. Deiliskipulag tjaldsvæðis

1804029

Oddur Hermannsson fyrir hönd Landamerkja ehf sótti um heimild til skipulags á Geysisflötum með umsókn á árinu 2018. Tillagan gerði ráð fyrir starfsemi við tjaldsvæði og þjónustu skv. leigusamningi á lóð sveitarfélagsins. Erindinu var hafnað af sveitarstjórn af þeim sökum að svæðið sem tekið var undir þótti of stórt undir viðkomandi starfsemi. Lögð eru fram ný gögn málsins þar sem búið er að minnka athafnasvæðið.
Skipulagsnefnd samþykkir framlagða tillögu og leggur til að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

6.Sigöldustöð og Hrauneyjafossstöð. Deiliskipulag

2203078

Landsvirkjun vinnur að gerð deiliskipulags fyrir aflstöðvar í eigu fyrirtækisins á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Hluti af Sigöldustöð og Hrauneyjafossstöð eru innan Rangárþings ytra.
Lögð er fram Skipulagslýsing frá Eflu dags. 22.3.2022.
Skipulagsnefnd samþykkir að veitt verði heimild til deiliskipulagsgerðar. Sameiginleg lýsing skipulagsáforma verði kynnt skv. gr. 5.2.4. í Skipulagsreglugerð. Frestur til ábendinga eða athugasemda skal vera 2 vikur frá auglýstum degi.

7.Sólstaður. Deiliskipulag

2203079

Landeigendur óska eftir breytingu á gildandi deiliskipulagi frá 26.2.2021. Breytingin felur í sér að hluta núverandi lóða er skipt upp og fara því í 13 úr 10. Auk þess breytist afmörkun einnar lóðar. Útmörk svæðisins verða óbreytt. Tillaga frá Eflu dags. 14.3.2022.
Skipulagsnefnd samþykkir að veita heimild til deiliskipulagsgerðar og leggur til að fallið verði frá kynningu lýsingar þar sem skipulagsáætlun samræmist stefnu aðalskipulagsins. Skipulagsnefnd samþykkir jafnframt framlagða tillögu og leggur til að hún verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

8.Laugar. Deiliskipulag fiskeldis

2204011

Skipulagsráðgjafi fyrir hönd lóðarhafa óskar eftir heimild til að leggja fram deiliskipulag af lóð félagsins Geo Salmo ehf að Laugum. Skipulagið lýtur að starfsemi félagsins á svæðinu en þar er og hefur verið rekin fiskeldisstöð til margra ára.
Skipulagsnefnd samþykkir að veita heimild til deiliskipulagsgerðar og leggur til að fallið verði frá kynningu lýsingar þar sem skipulagsáætlun samræmist stefnu aðalskipulagsins. Skipulagsnefnd samþykkir jafnframt framlagða tillögu og leggur til að hún verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar upplýsingar um minjar liggja fyrir.
Nefndin telur jafnframt að umrædd starfsemi sé ekki þess eðlis að hún hafi neikvæð áhrif á umhverfið og sé því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

9.Bæjarholt. Breyting á deiliskipulagi

2204020

Eigendur Bæjarholts óska eftir að gera breytingar á gildandi deiliskipulagi dags. 7.6.2013 þar sem skipt verði á byggingareitum, þ.e. reitur sem var á gildandi skipulagi ætlaður fyrir hesthús verði fyrir íbúðarhús og öfugt. Engar aðrar breytingar gerðar.
Skipulagsnefnd leggur til að veitt verði heimild til breytingar á gildandi deiliskipulagi. Nefndin telur að um óverulega breytingu sé að ræða þar sem breytingin víkur að engu leyti frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.
Nefndin leggur því til að farið verði um málsmeðferð skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 en telur ekki ástæðu til grenndarkynningar þar sem breytingin hefur ekki áhrif á aðra en landeiganda og sveitarfélagið.

10.Stækkun íþróttasvæðis á Hellu

2104028

Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur samþykkt að gera þurfi nauðsynlegar breytingar á landnotkun í aðalskipulagi sveitarfélagsins þar sem núverandi opið svæði norðan við grunnskólann og núverandi knattspyrnuvöll á Hellu, merkt OP2 á uppdrætti og í greinargerð aðalskipulagsins, verði gert að íþróttasvæði. Um er að ræða u.þ.b. 10 ha svæði. Tillaga var kynnt frá og með 2.2.2022 til og með 16.3.2022. Athugasemd og ábending barst frá íbúa við Hólavang þess efnis að ekki verði byggt of nærri lóðamörkum lóða við Hólavang og að ekki verði hróflað við "hólnum". Þá verði áformuð hæð mannvirkja og áformuð flóðlýsing hugsanleg skerðing á hagsmunum fasteignaeigenda.
Skipulagsnefnd þakkar fyrir góðar ábendingar og leggur áherslu á að útfærsla á gerð og staðsetningu mannvirkja og skipulagi svæðisins í heild verði gerð skil í væntanlegu deiliskipulagi fyrir svæðið. Skipulagsnefnd telur að búið sé að bregðast við öllum framkomnum athugasemdum og leggur til að tillagan verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu.

11.Þjóðólfshagi. Ósk um breytingu á landnotkun í aðalskipulagi.

2203008

Eigendur lóða nr. 4, 6, 8, 10, 13, 16, 20 og 24 í landi Þjóðólfshaga, óska eftir að landnotkun lóða sinna verði breytt úr frístundanotkun í íbúðarbyggð eða landbúnað að nýju, þar sem áform eru uppi um skráningu lögheimilis á lóðinni. Áður hefur lóðum nr. 19, 21, 23, 25, 27, 28, 29, 30, 31, 32, 33a og 34 verið breytt. Skipulagsnefnd frestaði afgreiðslu á síðasta fundi þar sem staðsetning umræddra lóða var ekki í samræmi við stefnu um afmörkun samliggjandi íbúða- og frístundalóða. Frá síðasta fundi hafa lóðarhafar nr. 1, 2, 3, 5, 7, 9, 12, 14, 15, 17, 18 og 22 bæst í hóp þeirra sem vilja breyta landnotkun lóða sinna úr frístundanotum í íbúðarnot.
Skipulagsnefnd leggur til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi svo áform umsækjenda geti orðið að veruleika. Nefndin telur að staðsetning umræddra lóða sé vel til þess fallin að bætast við þær lóðir sem þegar hafa verið samþykktar til sams konar breytinga. Nefndin ítrekar nauðsyn þess að gildandi deiliskipulag verði uppfært þessu til samræmis með samþykki allra lóðarhafa.

12.Íbúðasvæði austan Árbæjarvegar. Deiliskipulag

2203105

Sveitarfélagið í samvinnu með lóðarhöfum frá Árbyrgi að Heiðarbrún með báðum meðtöldum hafa sameinast um gerð deiliskipulags fyrir íbúðasvæði austan Árbæjarvegar. Breyting á aðalskipulagi sveitarfélagsins var auglýst í B-deild stjórnartíðinda 22.12.2021. Skipulagið tekur til 16 lóða og í gildi eru þrjú deiliskipulög á svæðinu frá árunum 2011 til 2021 og verða þau felld úr gildi við gildistöku þessa skipulags. Greinargerð og uppdráttur frá Eflu dags. 29.3.2022.
Skipulagsnefnd samþykkir framlagða tillögu og leggur til að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Öllum lóðarhöfum á svæðinu verði jafnframt send tillagan til yfirferðar í upphafi auglýsingartíma. Óskað verði jafnframt eftir undanþágu frá grein 5.3.2.5, lið "d" í skipulagsreglugerð vegna fjarlægðar milli bygginga og vega en nefndin telur ómögulegt að byggja upp umræddar lóðir nema til komi slík undanþága. Undanþága liggur fyrir nú þegar á nokkrum lóðanna á svæðinu.

13.Hallstún L209741 deiliskipulag

2111023

Linda B. Gunnlaugsdóttir hefur fengið heimild til að leggja fram deiliskipulag af landi sínu, Hallstúni L209741. Lögð er fram tillaga þar sem gerð er grein fyrir byggingu á allt að 150 m² frístundahúsi, 250 m² skemmu / hesthúsi og allt að 20 m² snyrtingu. Aðkoma að skipulagssvæðinu er frá Landvegi nr. 26 og um Ölversholtsveg nr. 303.
Skipulagsnefnd samþykkir framlagða tillögu og leggur til að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

14.Ásahreppur endurskoðun aðalskipulags 2020-2032

2004002

Ásahreppur hefur hafið endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Lögð er fram tillaga og óskað eftir umsögn um hana fram til 21. apríl nk.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi gögn en ítrekar vilja sinn til að koma af stað vinnu við að leiðrétta skörun sveitarfélagamarka þar sem það á við.

15.Rangárþing eystra. Endurskoðun aðalskipulags 2020-2032.

2001008

Guðmundur Úlfar Gíslason, skipulagsfulltrúi Rangárþings eystra, óskar eftir umsögn sveitarfélagsins um meðfylgjandi tillögu að heildarendurskoðun á aðalskipulagi Rangárþings eystra 2020-2032.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi gögn en ítrekar vilja sinn til að koma af stað vinnu við að leiðrétta skörun sveitarfélagamarka þar sem það á við.

Fundi slitið - kl. 16:50.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?