Gjaldskrá um fráveitugjald

GJALDSKRÁ

um fráveitu- og rotþróargjald í Rangárþingi ytra.

1. gr.

Af öllum fasteignum í þéttbýli Rangárþings ytra sem liggja við vegi, götur eða opin svæði þar sem fráveitulagnir sveitarfélagsins liggja, skal greiða árlega fráveitugjald og skal því varið til þess að standa straum af kostnaði við fráveitu sveitarfélagsins.

2. gr.

Álagningarstofn fráveitugjalds skal vera fasteignamat húsa, mannvirkja, lóða og landa, samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 með síðari breytingum.

Fráveitugjald skal nema 0,25% af álagningarstofni fasteigna. Sé ekkert mannvirki á lóð greiðist ekki fráveitugjald.

3. gr.

Sveitarfélagið innheimtir árlega rotþróargjald til niðurjöfnunar á kostnaði við hreinsun og tæmingu rotþróa skv. 22. gr. samþykktar um fráveitur í Rangárþingi ytra.

Árlegt rotþróargjald á íbúðar- og frístundahús, þar sem tæming á sér stað að
jafnaði þriðja hvert ár, skal vera eftirfarandi:

Rotþró kr. 14.500,-

Árlegt rotþróargjald við atvinnurekstur eða fyrirtæki, þar sem tæming á sér stað
að jafnaði þriðja hvert ár, skal vera eftirfarandi:

Rotþró 0-4000 lítra kr. 14.500,-
Rotþró 4001-6000 lítra kr. 16.800,-
Rotþró 6001 lítra eða stærri kr. 7.500 pr.m3.

Fyrir aukalosun rotþróa, allt að 6000 lítra að stærð, skal greiða kr. 68.000,-. Fyrir
aukalosun rotþróa, 6001 lítra eða stærri, skal greiða sérstaklega skv. gjaldskrá
losunaraðila.

4. gr.

Gjalddagar fráveitu- og rotþróargjalda skulu vera þeir sömu og sveitarstjórn
ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu þess hagað á sama hátt og
innheimtu fasteignaskatts.

Skráður eigandi fasteignar ber ábyrgð á greiðslu fráveitu og rotþróargjalds.

5.gr.

Fráveitu- og rotþróargjöld er heimilt að innheimta með fjárnámi í fasteign án tillits til eigendaskipta. Fráveitugjald nýtur lögveðsréttar í lóð og mannvirkjum næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og
aðfararveði.

6.gr.

Gjaldskrá þessi, sem samþykkt er af sveitarstjórn Rangárþings ytra, staðfestist
hér með skv. ákvæðum 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og
mengunarvarnir, með síðari breytingum, sbr. ákvæði samþykktar um holræsi og
holræsagjald í Rangárþingi ytra nr. 616/2004 og gildir frá og með 1. janúar 2021.

Hellu, 10. desember 2020

Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?