GJALDSKRÁ

fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Rangárþingi ytra.

 

  1. gr.

Af öllum fasteignum í þéttbýli Rangárþings ytra sem liggja við vegi, götur eða opin svæði þar sem fráveitulagnir sveitarfélagsins liggja, skal greiða árlega fráveitugjald og skal því varið til þess að standa straum af kostnaði við fráveitu sveitarfélagsins.

 

  1. gr.

Stofngjald fráveitu skal vera ákveðið hlutfall byggingarkostnaðar pr. fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlishúss eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987.

Einbýlishús 100% 290.698,- kr. pr. íbúð.

Par- rað- tvíbýlis- og keðjuhús 85% 247.093,- kr. pr. íbúð.

Fjölbýlishús 50% 145.349,- kr. pr. íbúð.

Mannvirki önnur en íbúðir 0,6% 1.744,- kr. pr. m2

Fermetrafjöldinn (m2), sem lagður er til grundvallar við útreikning á stofngjaldi fráveitu fyrir önnur mannvirki en íbúðir er margfeldið af lóðarstærð og nýtingarhlutfalli lóðar eins og viðkomandi deiliskipulag segir fyrir um. Sýni deiliskipulag að nýtingarhlutfall lóðar megi vera á ákveðnu bili þ.e.a.s. að gefið sé upp lágmarks og hámarks nýtingarhlutfall þá skal meðaltal hámarks og lágmarks nýtingarhlutfalls lagt til grundvallar við útreikning á stofngjaldi fráveitu.

Af viðbyggingum við eldri hús, önnur en íbúðarhús, þar sem deiliskipulag er ekki til staðar, eru fermetrar (m2) viðbyggingar lagðir til grundvallar við útreikning á stofngjaldi fráveitu kalli viðbyggingin á stofnframkvæmdir við fráveitulagnir.

Semja skal sérstaklega um stofngjald holræsa á stöðum fjarri dreifikerfislögnum holræsa eða þar sem lengd heimæðar er yfir 25 m og einnig ef um sérstakar úrlausnir fráveitumála er að ræða.

 

  1. gr.

Álagningarstofn fráveitugjalds skal vera fasteignamat húsa, mannvirkja, lóða og landa, samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 með síðari breytingum.

Fráveitugjald skal nema 0,21% af álagningarstofni fasteigna. Sé ekkert mannvirki á lóð greiðist ekki fráveitugjald.

  1. gr.

Sveitarfélagið innheimtir árlega rotþróargjald til niðurjöfnunar á kostnaði við hreinsun og tæmingu rotþróa skv. 22. gr. samþykktar um fráveitur í Rangárþingi ytra.

Árlegt rotþróargjald á íbúðar- og frístundahús, þar sem tæming á sér stað að jafnaði þriðja hvert ár, skal vera eftirfarandi:

Rotþró kr. 16.200,-

Árlegt rotþróargjald við atvinnurekstur eða fyrirtæki, þar sem tæming á sér stað að jafnaði þriðja hvert ár, skal vera eftirfarandi:

Rotþró 0-4000 lítra kr. 16.200,-

Rotþró 4001-6000 lítra kr. 18.760,-

Rotþró 6001 lítra eða stærri kr. 8.380 pr.m3.

Fyrir aukalosun rotþróa, allt að 6000 lítra að stærð, skal greiða kr. 75.940,-. Fyrir aukalosun rotþróa, 6001 lítra eða stærri, skal greiða sérstaklega skv. gjaldskrá losunaraðila.

 

  1. gr.

Gjalddagar fráveitu- og rotþróargjalda skulu vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu þess hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts.

Skráður eigandi fasteignar ber ábyrgð á greiðslu fráveitu og rotþróargjalds.

 

  1. gr.

Fráveitu- og rotþróargjöld er heimilt að innheimta með fjárnámi í fasteign án tillits til eigendaskipta. Fráveitu- og rotþróargjald nýtur lögveðsréttar í lóð og mannvirkjum næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði.

 

  1. gr.

Einingarverð samkvæmt gjaldskrá þessari breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingu á byggingarkostnaði vísitöluhúss eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987 og breytingu á byggingavísitölu og skal þá miða við byggingakostnað vísitöluhúss og byggingarvísitölu fyrir desember árið áður en breytt einingarverð taka gildi.

 

  1. gr.

Gjaldskrá þessi, sem samþykkt var af sveitarstjórn Rangárþings ytra þann 13. desember 2023, er sett með vísan til 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum, 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og á grunni samþykktar um fráveitu í Rangárþingi ytra frá 10. desember 2020. Gjaldskráin gildir frá birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Frá sama tíma fellur úr gildi eldri gjaldskrá um fráveitu og rotþróargjald í Rangárþingi ytra frá 14. desember 2022.

 

Hellu, 13. desember 2023

Jón G Valgeirsson, sveitarstjóri

 

Hér má nálgast gjaldskrána sem pdf. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?