84. fundur 17. ágúst 2015 kl. 09:00 - 11:00 Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Haraldur Birgir Haraldsson
  • Þorgils Torfi Jónsson formaður
  • Haraldur Eiríksson aðalmaður
  • Anna María Kristjánsdóttir aðalmaður
  • Yngvi Karl Jónsson aðalmaður
  • Margrét Harpa Guðsteinsdóttir aðalmaður
Fundargerð ritaði: Har. Birgir Haraldsson Skipulags- og byggingarfulltrúi

1.Stekkjarkot N-Nýjabæ, landskipti

1508006

Rangárþing ytra óskar eftir að skipt verði út úr jörðinni N-Nýjabæ, rúmlega 0,4 ha spildu. Spildan ber nafnið Stekkjarkot og fær landnr. 223443. Spildan var undanskilin í söluferli árið 2006 en ekki hefur verið gengið frá skráningu hennar þá.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við fyrirhuguð landskipti.

2.Lyngás fyrirspurn vegna byggingarlóða á opnu svæði

1506028

Bergur Sveinbjörnsson hefur lagt fram fyrirspurn um að fá að nýta óbyggt svæði næst Suðurlandsvegi fyrir 2-3 íbúðarhúsalóðir. Umrætt svæði er skilgreint sem opið svæði í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið vegna fjarlægðartakmarkana í skipulagsreglugerð. Leitað var álits Vegagerðar ríkisins. Í svari þeirra kemur fram að ekki séu gerðar athugasemdir við skipulagsáform en benda jafnframt á að ekki sé hægt að bera ábyrgð á að kröfum um hljóðvist sé tryggð þegar byggð eru íbúðarhús nær þjóðvegi en 100 metra skv. ákvæðum í skipulagsreglugerð.
Skipulagsnefnd leggur til að sótt verði um undanþágu til ráðuneytis um að fjarlægð frá miðlínu Suðurlandsvegar að byggingarreitum verði allt að 50 metrar, á þeim forsendum að uppfylltar verði hljóðvistarkröfur og að þeim verði gerð skil á breyttu deiliskipulagi.

3.Vindorkubú við Þykkvabæ, Umsókn um skipulag

1410031

Bíokraft ehf 640812-1680 hefur fengið heimild til að skoða möguleika á að reisa allt að 10 vindmyllur við Þykkvabæ. Vinna er hafin við mat á umhverfisáhrifum. Lögð hefur verið fram tillaga að staðsetningu þar sem tveir valkostir voru metnir. Nú liggur fyrir ákvörðun framkvæmdaraðila um staðsetningu.
Skipulagsnefnd telur að áformuð staðsetning henti vel til vindorkuframleiðslu og jafnvel til frekari iðnaðaráforma. Vinna við umhverfismat er á lokastigi. Skipulagsnefnd leggur til að veitt verði heimild til áframhaldandi skipulagsgerðar og leggur til að sveitarstjórn skipi sérstaka nefnd til að meta og fjalla um þær áherslur sem liggja fyrir í vindorkumálum og þá með hvaða hætti skipulagsmálum verði háttað með slík mál.

Skipulagsnefnd leggur til að gerðar verði breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins, þar sem iðnaðarsvæði til vindorkuframleiðslu verði skipulögð á tilteknu svæði.

4.Umsókn um lóð sunnan væntanlegs hringtorgs við Suðurlandsveg

1507018

Eignarhaldsfélagið RSS ehf óskar eftir að fá athafnalóðina sunnan við væntanlegt hringtorg á Suðurlandsvegi til úthlutunar fyrir uppbyggingu á alhliða þjónustu. Lóðin er áætluð u.þ.b. 20.000 m² að stærð og er á skipulögðu athafnasvæði skv. aðalskipulagi.
Skipulagsnefnd fagnar áhuga umsækjanda um áformaðan rekstur á svæðinu. Nefndin leggur þó til að skoðaður verði möguleiki á að reksturinn fari frekar fram á svæðinu rétt vestan við umrædda staðsetningu, nær Gaddstaðaveginum. Gera þarf breytingar á aðalskipulagi samhliða vinnu við deiliskipulag í báðum tilfellum.

5.Fellsmúli fiskeldi, deiliskipulag

1306039

Skipulagsstofnun óskar eftir umsögn vegna fyrirhugaðra breytinga á framkvæmd fiskeldisstöðvarinnar í Fellsmúla. Óskað er umsagnar um hvort og þá á hvaða forsendum ofangreind framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.
Skipulagsnefnd telur að meginskilmálar í deiliskipulagi breytist ekki við umsótta breytingu á starfsleyfi. Nefndin telur að fullnægjandi grein sé gerð fyrir framkvæmdinni í meðfylgjandi greinargerð frá Matorku. Umhverfi fiskeldisstöðvarinnar mun ekkert breytast með umræddri breytingu á starfsleyfi, gerð er fullnægjandi grein fyrir mótvægisaðgerðum og vöktun með mengandi áhrifum er fullnægt. Nefndin telur því að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

6.Svínhagi SH-17, breyting á deiliskipulagi

1505025

Landeigandi hefur fengið heimild til að gerðar verði breytingar á gildandi deiliskipulagi fyrir lóðina Svínhaga SH-17 sem samþykkt var 14. október 2014. Um er að ræða breytingu á fjarlægð íbúðarhúss frá Selsundslæk og fjölgun byggingareita á lóðinni í tvo. Undanþága vegna fjarlægðar frá Selsundslæk liggur fyrir frá UAR með bréfi dags. 8. maí 2015. Tillagan var auglýst frá 18.6.2015 til 30.7.2015 og barst ein athugasemd frá eigendum Selsunds vegna ágreinings um landamerki.
Áréttað er að deiliskipulagsbreytingin tekur til lóðarinnar Svínhagi SH-17, landnr. 218364 eins og hún er afmörkuð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og í þinglýstum gögnum. Eðli málsins samkvæmt verður skipulagsnefnd að leggja hina opinberu skráningu til grundvallar við meðferð skipulagstillögunnar. Þá er rétt að líta til þess að fyrir liggur óáfrýjaður dómur Héraðsdóms Suðurlands frá 18. október 2010 í máli nr. E-189/2010 um landamerki milli Selsunds og Svínhaga. Í málinu voru eigendur landspildna úr jörðinni Svínhaga sýknaðir af dómkröfum eigenda Selsunds.

Skipulagsnefnd tekur að öðru leyti enga afstöðu til þess ágreinings sem er uppi meðal landeigenda á svæðinu. Allar framkvæmdir á grundvelli deiliskipulagsins eru á ábyrgð eigenda lóðarinnar Svínhaga SH-17, landnr. 218364 en þeim er kunnugt um sjónarmið eigenda Selsunds í málinu.

Skipulagsnefnd hafnar því að deiliskipulagstillagan sé í andstöðu við aðalskipulag á svæðinu og leggur til að tillagan verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu.

7.Ölversholt 2, deiliskipulag

1505004

Guðbjörg E Benjamínsdóttir hefur lagt fram deiliskipulag af jörð sinni, Ölversholt 2. Tillagan hefur hlotið lögbundna meðferð skv. skipulagslögum og var auglýst frá 20.5.2015 til og með 1.7.2015. Ekki hafa borist neinar athugasemdir en enn vantar umsögn Minjastofnunar.
Eigendur hafa gert eina breytingu á uppdrætti eftir auglýsingu og er það smávægileg færsla á aðkomu að lóð nr. 2.
Skipulagsnefnd telur að umrædd færsla á aðkomu að lóðinni hafi engin áhrif á meginatriði tillögunnar. Skipulagsnefnd samþykkir því tillöguna og leggur til að hún verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu.

8.Gaddstaðaflatir deiliskipulag hestasvæðis

1501005

Rangárþing ytra hefur lagt fram tillögu að deiliskipulagi á svæðinu sunnan við hótel Stracta ásamt Aldamótaskógi. Skipulagt verður svæði fyrir hestatengda starfsemi og fleira. Tillagan var auglýst frá 18.6.2015 til 30.7.2015 og bárust engar athugasemdir.
Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og leggur til að hún verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu.

9.Efra-Sel, lóð 222958, Deiliskipulag

1505028

Rúnar Örn Indriðason fyrir hönd föður síns hefur lagt fram tillögu að deiliskipulagi fyrir lóð sína úr landi Efra-Sels 2. Gert er ráð fyrir frístundalóð þar sem heimilt yrði að byggja sumarhús, geymslu og gestahús. Tillagan var auglýst frá 18.6.2015 til 30.7.2015 og bárust engar athugasemdir á auglýsingatíma.
Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og leggur til að hún verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu.

10.Hungurfit, breyting á deiliskipulagi

1505051

Hungurfit, breyting á deiliskipulagi vegna rangrar staðsetningar á lóðamarkalínu milli lóðanna Þ1 og Þ2. Línan færist um 5 metra til austurs og jafnar þar með svæðið á milli mannvirkja á lóðunum. Tillagan var auglýst frá 18.6.2015 til 30.7.2015 og bárust engar athugasemdir á auglýsingatíma.
Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og leggur til að hún verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu.

11.Merkurhraun, Efnisnáma, breyting á aðalskipulagi 2010-2022

1301015

Vegagerðin hefur óskað eftir framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr námu í námukerfi Vegagerðarinnar í Merkurhrauni ofan Galtalækjar. Áformað er að leggja varanlegt slitefni á kafla frá núverandi slitlagi að Landmannaleið, u.þ.b. 5 km. Reiknað er með allt að 18.000 m³ efnistöku úr námunni til þessarar framkvæmdar. Gera þarf breytingu á landnotkun í aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022. Svæðið er allverulega raskað vegna efnistöku fyrri ára. Meðfylgjandi er lýsing vegna breytingar á aðalskipulaginu.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi lýsingu og felur skipulagsfulltrúa að hefja vinnu við nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022 þar sem efnistökusvæði í Merkurhrauni verður skilgreint sem slíkt.

12.Grásteinn, deiliskipulag aðkoma flatbytna í Ytri-Rangá

1506027

Landeigendur Grásteins leggja fram tillögu að deiliskipulagi fyrir svæði í landi sínu sem áformað er að nýta til ferðaþjónustu við Ytri-Rangá. Skipulagstillagan er lögð fram sem grundvöllur fyrir fyrirliggjandi ósk um framkvæmdaleyfi vegna aðstöðusköpunar við Ytri-Rangá. Fyrirliggjandi eru umsagnir Fiskistofu og veiðifélags Ytri-Rangár.
Skipulagsnefnd frestar erindinu þar sem umsögn Fiskistofu hefur ekki borist.

13.Leynir úr landi Stóra-Klofa II, deiliskipulag

1507020

Landeigendur Leynis, landnr. 217813 óska eftir heimild til að deiliskipuleggja land sitt. Gert verði ráð fyrir 4 frístundalóðum og gerð grein fyrir aðkomu að þeim. Landnotkun er skilgreind sem landbúnaður í aðalskipulagi.
Skipulagsnefndin samþykkir að veita heimild til deiliskipulagsgerðar en felur jafnframt skipulagsfulltrúa að gera tillögu að breytingum á aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010/2022 þar sem landnotkun svæðisins verði færð úr landbúnaðarnotum í frístundasvæði. Nefndin telur að fallið skuli frá lýsingu þar sem stefna verður skilgreind í aðalskipulagi samhliða gerð deiliskipulagsins.

14.Heiðarból, byggingarleyfi fyrir sumarhúsi

1506040

Gunnar Valdimarsson óskar eftir leyfi til að byggja 67,4 m² sumarhús úr timbri á lóð sinni Heiðarból landnr. 223106 sem stofnuð var út úr jörðinni Heiðarbrún.
Skipulagsnefnd telur að leggja þurfi fram deiliskipulag af svæðinu til að unnt sé að veita byggingarleyfi. Skipulagsfulltrúa er því falið að vinna áfram að málinu með umsækjanda.

15.Skipulagsmál vindmyllur - kynnisferð

1503030

Þátttaka fulltrúa Ry í kynnisferð til Skotlands. Formaður skipulagsnefndar, Þorgils Torfi Jónsson, segir frá ferðinni sem farin var 16.-19. mars sl.
Lagt fram til kynningar.

16.Reglugerð um mat á umhverfisáhrifum C-flokkur 660/2015

1507021

Birt hefur verið ný reglugerð um mat á umhverfisáhrifum, nr. 660/2015. Auk almennrar endurskoðunar á eldri reglugerð, hefur nýja reglugerðin að geyma ákvæði um framkvæmdir í flokki C, en ákvæði lagabreytingar um flokk C tóku gildi í júní síðastliðnum.
Lagt fram til kynningar

17.Landsnet, Kynning á tillögu að kerfisáætlun 2015-2024 og umhverfisskýrslu

1507022

Fyrir liggur tillaga að kerfisáætlun 2015-2024 um áætlaða þróun notkunar og framleiðslu raforku tengdri flutningskerfinu, auk þeirrar uppbyggingar sem ráðgerð er á meginflutningskerfinu. Landsnet kynnir nú tillögu að kerfisáætlun í samræmi við raforkulög nr. 65/2003 m.s.br. og umhverfisskýrslu í samræmi við lög nr. 105/2006, en í umhverfisskýrslu lagt er mat á umhverfisáhrif kerfisáætlunar.
Lagt fram til kynningar.

18.Reynifell 7A, byggingaráform

1508009

Úlfar Örn Valdimarsson fyrir hönd eiganda að lóð nr. 7A í landi Reynifells óskar eftir umsögn skipulagsnefndar vegna byggingaráforma um byggingu sumarhúss úr timbri skv. meðf. gögnum.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi byggingaráform og telur að svartur litur á sumarhúsum á Íslandi sé hluti af jarðarlitum.

19.Hraðahindrun í Þykkvabæ

1508018

Kristín Bjarnadóttir, íbúi að Stóra Rimakoti, óskar eftir að sett verði hraðahindrun sitt hvoru megin við íbúðarhús sitt. Ábending send með tölvupósti 8. ágúst sl.
Skipulagsfulltrúi leitaði álits Vegagerðar ríkisins og liggur hún hér frammi.
Þar sem vegurinn er innan þéttbýlismarka Þykkvabæjar er um 50 km hámarskshraða að ræða. Nefndin telur að með lækkun hraða úr 50 sé ráðist gegn hagsmunum annarra íbúa við veginn.

Nefndin leggur því til að athugað verði hjá Vegagerð ríkisins með uppsetningu á þrengingum sem settar verði tímabundið og með þeim kannað hvort ástand breytist til batnaðar.

20.Hellubíó, fyrirspurn um breytta notkun húsnæðis

1508022

Al-Hönnun ehf, fyrir hönd fyrirspyrjenda, óskar eftir áliti sveitarstjórnar á því hvort mögulega geti orðið um breytta notkun að ræða á húsnæðinu Hellubíó, þar sem áformað er að breyta notkun þess í gistiheimili / hostel fyrir ferðamenn. Gert yrði ráð fyrir allt að 12-14 herbergjum með sameiginlegri salernis- og sturtuaðstöðu og aðgangi að fullbúnu eldhúsi fyrir gesti. Ekki yrði um veitingasölu að ræða.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu erindisins.

Fundi slitið - kl. 11:00.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?