42. fundur 09. desember 2021 kl. 13:00 - 18:00 að Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Björk Grétarsdóttir oddviti
  • Haraldur Eiríksson aðalmaður
  • Hjalti Tómasson varaoddviti
  • Margrét Harpa Guðsteinsdóttir aðalmaður
  • Yngvi Harðarson aðalmaður
  • Magnús H. Jóhannsson varamaður
  • Ágúst Sigurðsson aðalmaður
Fundargerð ritaði: Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri
Oddviti bauð fundarmenn velkomna og lagði til þá tillögu að breytingu á dagskrá að taka út dagskrárlið 2.11 Tillaga Á-lista um auðlindastefnu og í staðinn falli niður liður 12. um sama efni. Það var samþykkt samhljóða. Einnig sat fundinn undir lið 11. Guðjón Ármansson lögfræðingur sveitarfélagsins. Áður en gengið var til dagskrár gaf oddviti sveitarstjóra orðið sem fór yfir nokkur atriði úr rekstri sveitarfélagsins.

1.Samráðsnefnd Rangárþings ytra og Ásahrepps - 2

2111004F

Vísað er til umfjöllunar um einstaka liði en fundargerðin að öðru leyti til kynningar.
  • Samráðsnefnd Rangárþings ytra og Ásahrepps - 2 VV fór yfir minnisblað með samantekt um kaup á búnaði og frágangi lóðar sem hefur fallið á byggingarreikning Lundar en útlagður kostnaður er 49.402.090 kr. Fjármagnskostnaður er að auki 4.143.749 kr. Fram kom að reynt hafi verið að fá ríkisvaldið til að koma að þátttöku í fjárfestingu í búnaði og lóðarfrágangi en það hefur ekki gengið eftir enn sem komið er þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir yfirstjórnar Lundar og fulltrúa sveitarfélaganna. Málið var rætt og ákveðið að vísa minnisblaðinu til afgreiðslu hjá sveitarstjórnunum.

    Samþykkt samhljóða.
    Bókun fundar Lagt fram minnisblað um kostnað vegna innbús nýbyggingar og frágangs lóðar á Lundi hjúkrunar- og dvalarheimili sem ekki hefur tekist að fá ríkið til að taka þátt í enn sem komið er þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Í minnisblaðinu kemur fram að Rangárþing ytra hefur á árinu 2021 greitt 44 mkr til byggingarsjóðs Lundar til uppgjörs á þessum kostnaði. Lagt er til að sveitarstjórn samþykki að greiða þessu til viðbótar 2.317.151 kr til byggingarsjóðs Lundar og hefur sveitarfélagið Rangárþing ytra þá greitt 86,5% af öllum útlögðum kostnaði og fjármagnskostnaði sem útaf stóð hjá byggingarsjóði Lundar. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið Ásahreppur standi skil á þeim 13,5% sem þá standa eftir og er það í samræmi við hlutfallslegan fjölda íbúa 1. janúar 2021 í sveitarfélögunum tveimur.

    Samþykkt með 4 atkvæðum, 3 sitja hjá (MHG,YH,MHJ)


    Bókun Á-lista:
    Fulltrúum Á-lista í sveitarstjórn Rangárþings ytra finnst óábyrgt að samþykkja að greiða þennan kostnað þegar ekki liggur fyrir samþykki Ásahrepps á að greiða það sem út af stendur og sitja því hjá.
    Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
    Yngvi Harðarson
    Magnús Hrafn Jóhannsson
  • Samráðsnefnd Rangárþings ytra og Ásahrepps - 2 Rætt um fyrirkomulag samráðsfunda. Samþykkt samhljóða að halda slíka samráðsfundi með svipuðu sniði og hefur verið. Áætlað er að halda fund 22. febrúar 2022 kl 16:00 fyrir árin 2019-2020 og síðan 3. maí 2022 kl. 16:00 þegar ársreikningar fyrir árið 2021 liggja fyrir.
    Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun samráðsnefndar fyrir sitt leyti.

    Samþykkt samhljóða.
  • Samráðsnefnd Rangárþings ytra og Ásahrepps - 2 ÁS fór yfir tillögu þess efnis að uppreikna þjónustugjöld vegna þjónustusamninga miðað við 80% launavísitölu og 20% neysluverðsvísitölu og var ekki gerð athugasemd við þá breytingu. Jafnframt var ákveðið að fara í endurskoðun á Rammasamningi Rangárþings ytra og Ásahrepps og að þeirri endurskoðun verði lokið fyrir samráðsfund 22. febrúar 2022. Hreppsnefnd Ásahrepps hefur þegar skipað þrjá fulltrúa í slíkan vinnuhóp. Óskað er eftir að sveitarstjórn Rangárþings ytra tilnefni þrjá fulltrúa einnig. Stefnt er að því að nefndin hittist mánudaginn 3. janúar 2022.

    Samþykkt samhljóða.
    Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun samráðsnefndar fyrir sitt leyti og skipi Björk Grétarsdóttur, Margréti Hörpu Guðsteinsdóttur og Ágúst Sigurðsson í vinnuhóp um endurskoðun rammasamkomulags Rangárþings ytra og Ásahrepps.

    Samþykkt samhljóða.

2.Byggðarráð Rangárþings ytra - 42

2111002F

Vísað er til umfjöllunar um einstaka liði en fundargerðin að öðru leyti staðfest.
  • Byggðarráð Rangárþings ytra - 42 Tillögunni vísað til sveitarstjórnar til afgreiðslu. Bókun fundar Vísað til sveitarstjórnar til afgreiðslu:

    Undirrituð leggur til að unnin verði auðlindastefna fyrir Rangárþing ytra. Á meðan sú vinna er í gangi verður auðlindum í eigu sveitarfélagsins ekki ráðstafað.
    Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
    Fulltrúi Á-lista í byggðarráði

    Greinargerð: Tilgangurinn með gerð auðlindastefnu er að skilgreina þær auðlindir sem sveitarfélagið býr yfir, meta verðmæti og gildi þeirra fyrir samfélagið með það fyrir augum að auðvelda vinnu við ýmsar áætlanir og rekstur sveitarfélagsins. Kostir auðlindastefnu eru meðal annars þessir;
    - að sveitarfélagið sé beinn gerandi í stjórnun auðlinda í sveitarfélaginu,
    - að samfélagið og íbúar þess njóti góðs af auðlindum í sveitarfélaginu,
    - að nýting auðlinda sé sjálfbær.
    Auðlindastefna hefur mikilvægt gildi til framtíðar. Hún getur auðveldað skipulagsgerð, stutt við þróun í ferðaþjónustu og hámarkað virði þeirra auðlinda sem taldar verða til nytja af einhverju tagi.

    Tillögunni hafnað með 4 atkvæðum (BG,HE,HT,ÁS), 3 samþykktu (MHG,MHJ,YH).

    Bókun D-lista:
    Enginn ágreiningur er um það í sveitarstjórn Rangárþings ytra að mikilvægt er að vinna auðlindastefnu fyrir sveitarfélagið og fulltrúar D-listans vilja svo sannarlega vinna að því. Við hins vegar höfnum tillögunni á þessu formi. Nýlega höfum við lokið vinnu við metnaðarfulla atvinnu- og nýsköpunarstefnu og erum nú að hrinda henni í framkvæmd. Margt í hinni nýju atvinnu- og nýsköpunarstefnu sveitarfélagsins tekur á þáttum sem yfirleitt eru teknir með í auðlindastefnu og því þarf að meta hvort útvíkka eiga fyrrnefndu stefnuna þannig að hún taki á öllum þessum þáttum. Þau sveitarfélög sem markað hafa sér stefnu um auðlindir hafa öll lagt hvað mesta áherslu á orkunýtingu og atvinnustarfsemi tengda henni. Í Rangárþingi er framleiddur bróðurparturinn af þeirri raforku sem drífur Ísland áfram og því liggur beint við að hluti raforkunnar sé markvisst nýttur innan héraðs. Samkvæmt hinni nýju atvinnu- og nýsköpunarstefnu þá liggja mörg stærstu tækifæri héraðsins í því að vinna að orkufrekum grænum verkefnum - t.d. grænum iðngörðum. Slíkar hugmyndir hljóta að vera megininntak auðlindastefnu og því mjög mikilvægt að sameina stefnumarkmið sveitarfélagsins á þessu sviði í einum farvegi markvissrar auðlinda- atvinnu- og nýsköpunarstefnu. Fulltrúar D-lista telja eðlilegt að í stað þess að vinna sérstaka auðlindastefnu þá verði hin nýja atvinnu- og nýsköpunarstefna sveitarfélagsins útvíkkuð þannig að hún taki á þeim þáttum sem gjarnan eru teknir fyrir í auðlindastefnu sveitarfélaga. Tækifærið verði nýtt þegar atvinnu- og nýsköpunarstefna sveitarfélagsins verður endurmetin eins og stefnt er að í október 2022. Teljum við því rétt að koma fram með tillöguna á breyttu formi og stefnum að því á næsta fundi sveitarstjórnar.
    Björk Grétarsdóttir
    Haraldur Eiríksson
    Hjalti Tómasson
    Ágúst Sigurðsson


    Bókun Á-lista:
    Fulltrúar Á-lista í sveitarstjórn Rangárþings ytra furða sig á að fulltrúar D-lista felli mál sem er á stefnuskrá þeirra fyrir þetta kjörtímabil. Báðir listar voru með gerð auðlindastefnu á stefnuskrá sinni og því ætti að vera auðvelt að sammælast um gerð hennar.
    Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
    Yngvi Harðarson
    Magnús Hrafn Jóhannsson


3.Héraðsnefnd - 7 fundur

2112012

Fundargerð 27102021 og Ársreikningur 2020
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

4.Héraðsnefnd - 8 fundur

2112013

Fundargerð 02122021 og fjárhagsáætlun 2022.
Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti fyrir sitt leyti rekstraráætlun fyrir Héraðsnefnd Rangæinga 2022.

Samþykkt samhljóða.

5.Skógasafn stjórnarfundur 14 - 2021

2112024

Fundargerð frá 02122021
Lagt fram til kynningar.

6.Brunavarnir Rangárvallasýslu - stjórn 70

2112016

Fundargerð 08112021
Fundargerðin til kynningar.

7.Brunavarnir Rangárvallasýslu - stjórn 71

2112017

Fundargerð 06122021, rekstraráætlun 2022 og brunavarnaráætlun.
Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti fyrir sitt leyti rekstraráætlun fyrir Brunavarnir Rangárvallasýslu bs 2022. Jafnframt staðfestir sveitarstjórn fyrir sitt leyti brunavarnaráætlun 2021-2026 fyrir Rangárvallasýslu.

Samþykkt samhljóða.

8.Aðalfundur Bergrisans bs 2021

2111026

Fundargerð frá 24.11.2021 og tillaga stjórnar Bergrisans um stofnun sjálfseignarstofnunar um byggingu og rekstur íbúðakjarna fyrir fatlað fólk.
Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti fyrir sitt leyti rekstraráætlun fyrir Bergrisann bs 2022. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að Rangárþing ytra gerist stofnaðili sjálfseignarstofnunar um byggingu og rekstur íbúðakjarna fyrir fatlað fólk. Kostnaðarhlutur sveitarfélagsins við stofnun sjálfseignarstofnuninnar er 70.000 kr.

Samþykkt samhljóða.

9.Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45

2111005F

Vísað er til umfjöllunar um einstaka liði en fundargerðin að öðru leyti staðfest.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd gerir engar athugasemdir við skiptingu lóðarinnar og felur skipulagsfulltrúa að ganga frá málinu. Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við áformuð landskipti né fyrirhugað heiti á nýrri lóð. Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimild verði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli heimilda innan aðalskipulags Rangárþings ytra þar sem skilgreind er starfsemi á umræddu svæði. Niðurstaða nefndarinnar er að umrædd framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimild verði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli heimilda innan aðalskipulags Rangárþings ytra þar sem skilgreind er starfsemi á umræddu svæði. Niðurstaða nefndarinnar er að umrædd framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd samþykkir að veita heimild til deiliskipulagsgerðar og leggur til að fallið verði frá lýsingu þar sem skipulagsáætlun samræmist stefnu aðalskipulagsins.
    Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og leggur til að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd getur ekki séð að parhús henti á umræddri lóð og hafnar því erindinu. Bókun fundar Í ljósi þess að borist hafa ný gögn í málinu þá er lagt til að fresta afgreiðslu erindisins til næsta fundar sveitarstjórnar þann 13. janúar 2022.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd getur ekki séð að parhús henti á umræddri lóð og hafnar því erindinu. Bókun fundar Í ljósi þess að borist hafa ný gögn í málinu þá er lagt til að fresta afgreiðslu erindisins til næsta fundar sveitarstjórnar þann 13. janúar 2022.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd samþykkir að veita heimild til deiliskipulagsgerðar og leggur til að fallið verði frá lýsingu þar sem skipulagsáætlun samræmist stefnu aðalskipulagsins.
    Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og leggur til að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd með staðfestingu sveitarstjórnar hefur veitt heimild til breytingar á gildandi deiliskipulagi. Nefndin telur að um óverulega breytingu sé að ræða þar sem breytingin víkur að engu leyti frá nýtingarhlutfalli, útliti né formi viðkomandi svæðis. Eingöngu er um að ræða breytingar á byggingarskilmálum vegna umræddrar breytingar á landnotkun í aðalskipulagi ásamt örlitlum breytingum á afmörkun byggingareita innbyrðis.
    Nefndin leggur því til að farið verði um málsmeðferð skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og telur enga ástæðu til grenndarkynningar þar sem breytt áform hafa engin áhrif á aðra en þá sem hlut eiga að máli.
    Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • 9.10 2109053 Fossabrekkur
    Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og leggur til að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd fjallaði um fram komnar athugasemdir. Nefndin samþykkir tillöguna og leggur til að hún verði auglýst að nýju skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna þess hve langur tími hefur liðið frá síðustu auglýsingu. Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd hefur fjallað um fram komnar athugasemdir. Nefndin telur að búið sé að bregðast við öllum framkomnum athugasemdum og leggur til að tillagan verði send Skipulagsstofnun til endanlegrar afgreiðslu. Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd telur að veita eigi umsækjanda heimild til að leggja fram nýja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóð sína, þrátt fyrir að niðurstaða sé ekki fengin í aðkomumál svæðisins í heild sem unnið hefur verið að í samráði við Vegagerðina. Ný áform umsækjanda fela í sér að heimilt verði að staðsetja allt að 3 gistiskála á lóðinni sem nýta skuli sömu aðkomu og nú er frá Suðurlandsveginum. Þar sem umsækjandi rekur umfangsmikla þjónustu á lóð sinni telur nefndin að umrædd áform muni ekki hafa nein umtalsverð áhrif til aukningar á umferð frá því sem nú er. Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd fjallaði um fram komnar athugasemdir og fór yfir svör við þeim. Tekin voru saman helstu atriði úr athugasemdum og svör við þeim skilgreind. Samantekt verður send þeim sem gerðu athugasemdir og verður einnig hluti af afgreiðslu nefndarinnar. Nefndin telur að áform umsækjanda um að bætt verði við tveimur lóðum á svæðið muni ekki hafa umtalsverð áhrif á svæðið og getur því ekki fallist á fram komnar athugasemdir sem að því lýtur.
    Skipulagsnefnd samþykkir því tillöguna og leggur til að hún verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd fjallaði um fram komnar athugasemdir stofnunarinnar. Beiðni kom frá öllum lóðarhöfum um breytingu á landnotkun. Lóðir eru misstórar og stefnt á búfjárhald á nokkrum lóðum og því æskilegt að svæðið sé skilgreint sem landbúnaðarland. Uppbygging svæðis hefur ekki neikvæð áhrif á uppbyggingaráform í landi Stóru-Valla. Að öllu framansögðu, þykir ekki ástæða til að gera breytingar á tillögu til breytingar aðalskipulags.
    Nefndin telur að búið sé að svara því sem skipulagsstofnun kallaði eftir og samþykkir því tillöguna til auglýsingar skv. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin vill árétta að strax í kjölfar gildistöku breytingarinnar verði hafist handa við gerð deiliskipulags fyrir svæðið.
    Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd leggur til að ekki verði gerð athugasemd við að undanþága verði veitt frá ákvæðum skipulagsreglugerðar hvað varðar lið 5.3.2.5 sem tekur á fjarlægð milli bygginga og vegar. Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra - 45 Skipulagsnefnd leggur til að gerð verði nauðsynleg breyting á aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028 þar sem tiltekin lagnaleið verði skilgreind í samræmi við reglur þar um. Að auki telur nefndin ákjósanlegt í ljósi tímasetningar að samhliða verði sett inn lega nýs göngu- og hjólreiðastígar meðfram Suðurlandsvegi á milli Hellu og Hvolsvallar. Bókun fundar Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umferðarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.

10.Snjómokstur

1611023

Niðurstaða verðkönnunar
Fjögur tilboð bárust í snjómokstur héraðs- og tengivega í Rangárþingi ytra og Ásahreppi. Lagt er til að ganga til samninga við Nautás ehf fyrir svæði 1 og 2 og Annir ehf fyrir svæði 3 og 4.

Samþykkt samhljóða.

11.Fiskiræktun í efri hluta Eystri Rangár

2104031

Tillaga að leigusamningi
Lýður Skúlason, Guðmundur Ingi Hjartarson og Finnur Björn Harðarson kynntu sl. vor fyrir sveitarstjórn hugmyndir sínar um möguleika til fiskiræktar í efri hluta Eystri-Rangár með tilheyrandi atvinnuuppbyggingu tengdri laxveiði. Í framhaldinu sendu þeir inn erindi til sveitarstjórnar um möguleg kaup á landi sem liggur að efri hluta Eystri-Rangár. Sveitarstjórn hafnaði því en ákvað jafnframt að kanna hvort aðrar leiðir væru færar t.d. einhver útfærsla á leiguleið. Þess ber að geta að jörðin Keldur sem er í eigu fjölskyldu Lýðs Skúlasonar liggur að fyrrgreindu landi og gegnir lykilhlutverki gagnvart möguleikum þess að stunda fiskirækt í efri hluta Eystri-Rangár. Málið var til formlegrar umfjöllunar á fundum sveitarstjórnar nr. 33,35 og 40 þann 15.4.2021, 10.6.2021 og 11.11.2021. Í samræmi við samhljóða ákvörðun sveitarstjórnar á 35. fundi þá var sveitarstjóra falið að vinna málið áfram og á 40. fundi sveitarstjórnar var lögð fram tillaga að leigusamningi sem hefur síðan þá verið opin öllum til skoðunar. Jafnframt liggur fyrir greinargerð um áformin frá þeim sem standa að verkefninu. Samningurinn er til 5 ára og uppsegjanlegur fyrir báða aðila gangi áætlanir um uppbygginguna ekki eftir en framlengjanlegur um 30 ár ef báðir aðilar telja árangur hans í takt við áætlanir. Í leigusamningi eru beitarréttindi undanskilin auk landspildna sem þegar eru leigusamningar um við aðra aðila. Áfram er því miðað við að nýta landið fyrir sauðfjárbeit á vegum fjallskiladeildar Rangárvallaafréttar með óbreyttum hætti frá því sem verið hefur. Þá getur sveitarfélagið skipulagt og nýtt og eftir atvikum selt allt að 100 hektara úr hinu leigða landi á samningstímanum.

Tillaga
Í ljósi gagnlegrar umræðu á fundinum og ábendinga sem hafa borist nú fyrir fund er lagt til að sveitarstjórn efni til sértaks vinnufundar um málið til að fjalla um samningstillöguna og athugasemdir sem hafa borist. Reiknað er með að sveitarstjórn muni kalla þá aðila til fundar sem tengjast málinu og þörf þykir á. Fundurinn verði haldinn í fyrstu viku janúar 2022. Jafnframi verði vakin athygli á málinu á heimasíðu sveitarfélagsins. Afgreiðslu erindisins verði frestað til næsta reglubundna fundar sveitastjórnar þann 13. janúar n.k.

Samþykkt samhljóða.


Bókun Á-lista
Fulltrúar Á-lista í sveitarstjórn Rangárþings ytra gera athugsemdi við að fulltrúar D-lista hafi boðað lögmann sveitarfélagsins á þennan sveitarstjórnarfund, með örfárra klukkustunda fyrirvara frá Reykjavík, til að sitja undir þessum 11. lið fundarins. Lögmaðurinn hefur beðið frá upphafi fundar og þá væntanlega á fullum launum allan tímann sem sveitarfélagið greiðir. Það er ágætt að fulltrúar meirihlutans telja að nóg sé til af peningum í svona mál.
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Yngvi Harðarson
Magnús Hrafn Jóhannsson

Hjalti Tómasson vék af fundi og Hugrún Pétursdóttir tók sæti á fundinum.

Bókun D-lista
Í ljósi fyrirspurna frá Á-lista um lögfræðileg atriði á síðustu dögum um málið þá þótti okkur ófært annað en kalla til sérfræðing sveitarfélagsins í þessum málum þannig að hægt væri að spyrja og fræðast milliliðalaust um þetta mikilvæga mál.

Björk Grétarsdóttir
Haraldur Eiríksson
Hugrún Pétursdóttir
Ágúst Sigurðsson

12.Tillaga Á-lista um kostnaðarmat á vegtengingu frá Þykkvabæ að Sandhólaferju

2112021

Fulltrúar Á-lista í sveitarstjórn Rangárþings ytra leggja til að skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að reikna út hvað myndi kosta að koma á vegtengingu frá Þykkvabæ að Sandhólaferju. Útreikningar verði lagðir fram á næsta fundi Byggðarráðs.

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Yngvi Harðarson
Magnús Hrafn Jóhannsson


Breytingartillaga D-lista:
Fulltrúar D-lista leggja til að í stað þess að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að leggjast í útreikninga á vegakostnaði þá verði fjarskipta- og samgöngunefnd falið að vinna að tillögu að vegstæði fyrir nýja vegtengingu milli Sandhólaferju og Þykkvabæjar. Starfsmenn sveitarfélagsins þ.m.t. forstöðumaður eigna- og framkvæmdasviðs og skipulags- og byggingarfulltrúi starfi með nefndinni og leiti samráðs við landeigendur um möguleikana í stöðunni. Stefnt verði að því að tillaga um vegstæði liggi fyrir á fundi byggðarráðs í febrúar.
Greinargerð: Enginn ágreiningur er um það í sveitarstjórn Rangárþings ytra að mikilvægt er að koma á hringtengingu um Þykkvabæ og afar spennandi að virkja hina gömlu leið milli Sandhólaferju og Háfshverfis í Þykkvabæ til að efla m.a. ferðaþjónustu á svæðinu og bæta samgöngur almennt. Þessi hugmynd hefur m.a. verið rædd á fundum fulltrúa sveitarfélagsins með forsvarsfólki vegagerðarinnar á síðustu misserum. Slíkur vegur þyrfti að uppfylla kröfur sem gerðar eru til tengivega og vera þannig gjaldgengur inn á vegaskrá Vegagerðarinnar. Viðmiðunartölur um kostnað við að koma á slíkri vegtengingu liggja fyrir og er nærtækt að nýta nýjustu kostnaðartölur við tengivegi í sveitarfélaginu. Nýjasta dæmið sem nýta má er kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar fyrir veglagningu á 2.5 km tengivegarkafla frá Gunnarsholti að Hróarslæk nú í haust. Sú kostnaðarætlun gerði ráð fyrir 100 mkr eða 40 mkr/km en þar er um að ræða malbikaðan veg skv. stöðlum Vegagerðarinnar sem er byggður á gömlum malarvegi. Almennt hefur Vegagerðin gert ráð fyrir að kostnaður við uppbyggðan og malbikaðan veg sem uppfyllir staðla sem tengivegur sé 40-50 mkr/km og ef ekki er malbikað þá megi gera ráð fyrir 20-25 mkr/km. Slíkur vegur myndi þá uppfylla þau skilyrði sem gerð eru til að komast á vegaskrá og í þjónustu vegagerðarinnar. Núverandi vegslóði milli Þykkvabæjar og Sandhólaferju er u.þ.b. 5.5 km að lengd en mögulega er heppilegasta vegstæðið ekki á núverandi stað alfarið og mætti því gera ráð fyrir að áætluð vegalengd sé 5.5-6.5 km. Gróf kostnaðaráætlun fyrir malbikaðan tengiveg væri þá 220-325 mkr og ef um malarveg væri að ræða þá 110-163 mkr. Kostnaðarviðmið liggja því fyrir og næstu skref eru að ræða við landeigendur og kanna með heppilegt vegstæði fyrir þennan mikilvæga tengiveg um Þykkvabæ. Þegar þeim áfanga er náð þarf að vinna málinu fylgi hjá yfirvöldum samgöngumála og hrinda því í framkvæmd sem allra fyrst.
Björk Grétarsdóttir
Haraldur Eiríksson
Hugrún Pétursdóttir
Ágúst Sigurðsson

13.Erindi og fyrispurnir frá Á-lista 2021

2102027

Fyrirspurnir Á - lista:

Eru allar lausar byggingarlóðir (íbúða-, atvinnu- og hesthúsalóðir) skráðar á réttan hátt sem lóðir til úthlutunar á kortasjá sveitarfélagsins?
Svar: Já eftir því sem best er vitað.

Hvað hefur þjónustumiðstöð unnið marga tíma í ár fyrir Oddafélagið og er greitt fyrir þá vinnu?
Svar: Þjónustumiðstöð aðstoðaði við slátt og flutninga í Odda á Oddahátið í júlí og hreinsun og niðurrif gamallar hlöðu í Ekru sem fauk óveðri í september. Oddafélagið greiddi fyrir aðstoðina skv. gjaldskrá þjónustumiðstöðvar samtals 751.728 kr. Reikningar og vinnuseðlar fylgja hér með til frekari upplýsinga.

Óskum eftir umræðum um orlofstöku og uppgjöri á orlofi sveitarstjóra. Eru fleiri starfsmenn sveitarfélagsins í sömu stöðu og sveitarstjóri að komast ekki í frí nema örfáa daga á ári? Hvernig er staðið að uppgjöri við þá starfsmenn sveitarfélagsins sem ekki ná að taka sitt samningsbundna orlof?

Svar: Almennt geta flestir starfsmenn sveitarfélagsins tekið út sitt orlof með reglubundnum hætti og er reynt að skipuleggja starfið þannig að slíkt sé mögulegt. Starfsfólk er almennt hvatt til að nýta orlofið sitt ef það fer að bera á mikilli uppsöfnun. Stjórnendur og starfsmenn sem búa við mjög óreglulegan vinnutíma og þeir sem sinna viðamiklum útköllum og vöktum eiga þó í sumum tilfellum erfiðara með að taka út sitt orlof með reglubundnum hætti. Við starfslok hefur reglan verið sú að gera upp það orlof sem útaf stendur.

14.Erindi vegna mögulegrar styrkveitingar

2112022

Áskorun frá Gunnari A. Ólasyni vegna Landsmóts hestamanna.
Lagt fram til kynningar.

Bókun D-lista:
Fulltrúar D-lista telja hvorki skynsamlegt né sanngjarnt að tengja óskyld mál saman með þeim hætti sem Gunnar A. Ólason leggur til með áskorun sinni. Að öðru leyti er vísað til afgreiðslu fjárhagsáætlunar undir lið 28.

Björk Grétarsdóttir
Haraldur Eiríksson
Hugrún Pétursdóttir
Ágúst Sigurðsson

Bókun Á-lista:
Fulltrúar Á-lista þakka fyrir erindið. Ýmis félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir er málið varðar hafa nú þegar fordæmt þessi vinnubrögð og treysta fulltrúar Á-lista að búið sé að koma í veg fyrir dýraníð af þessu tagi og að þeir sem hafi viðhaft það fái viðeigandi refsingu. Fulltrúar Á-lista telja að móta eigi skýrar úthlutunarreglur hjá sveitarfélaginu vegna styrkja af þessu tagi.

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Yngvi Harðarson
Magnús Hrafn Jóhannsson

15.Gjaldskrá Odda bs 2022

2110060

Til afgreiðslu.
Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti fyrir sitt leyti gjaldskrá Odda bs fyrir árið 2022.

Breytingartillaga Á-lista:

Fulltrúar Á-lista í sveitarstjórn Rangárþings ytra leggja til að 15% hækkun á leikskólagjöldum verði dregin til baka og notast verði við vísitöluhækkun líkt og gert er ráð fyrir í rekstraráætlun Odda bs.

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Yngvi Harðarson
Magnús Hrafn Jóhannsson

Greinargerð: Í rekstraráætlun Odda bs. var einungis gert ráð fyrir vísitöluhækkun og að aðrir afslættir yrðu óbreyttir fyrir árið 2022. Þrátt fyrir það ákvað stjórn Odda bs. að hækka gjaldskrá umfram forsendur rekstraráætlun og breyta afsláttarreglum en ekki þótti ástæða til að taka upp fjárhagsáætlunina þar sem þessi breyting myndi skila afar litlum tekjum. Ef vilji er að hækka leikskólagjöld þarf að vanda betur til verka, rökstyðja hækkun og kynna hana vel fyrir íbúum.

Breytingartillagan borin upp og felld með 4 atkvæðum (BG,HE,HT,ÁS), 3 samþykktu (MHG,MHJ,YH).

Bókun D-lista:
Hækkun á vistunargjöldum eru alfarið vísitöluhækkun en á síðustu tveimur árum voru vistunargjöldin ekki látin fylgja hækkun á vísitölu heldur ákveðið fyrir hvatningu frá stjórnvöldum að hækka gjöldin einungis um 2,5% hvort árið. Vistunargjöldin fyrir árið 2022 eru nú hækkuð miðað við blandaða vísitölu launa og neysluverðs sem er 15% hækkun miðað við síðustu tvö ár. Áfram eru vistunargjöld á leikskólum okkar með þeim allra lægstu á landinu og um helmingi lægri en hjá flestum sveitarfélögum á Suðurlandi.
Björk Grétarsdóttir
Haraldur Eiríksson
Hugrún Pétursdóttir
Ágúst Sigurðsson

Upprunalega tillagan þá borin upp og samþykkt með 4 atkvæðum (BG,HE,HP,ÁS), 3 voru á móti (MHG,MHJ,YH).

16.Gjaldskrá Íþróttamiðstöðva 2022

2111046

Til afgreiðslu
Lagt er til að sveitarstjórn samþykki gjaldskrá fyrir Íþróttamiðstöð árið 2022.

Samþykkt samhljóða.

17.Tillögur að öðrum gjaldskrám í Rangárþingi ytra fyrir árið 2022

2111047

Til afgreiðslu
Lagt er til að sveitarstjórn samþykki gjaldskrár fyrir hunda- og kattahald og geymslusvæði fyrir árið 2022.

Samþykkt samhljóða.

18.Tillögur að álagningarprósentum, afsláttum og gjaldskrám fyrir árið 2022

2111043

Til afgreiðslu
Gildir frá og með 1. janúar 2022

1. Útsvar; 14,52%.

2. Fasteignaskattur;
A - 0,36% af fasteignamati: Íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum.
B - 1,32% af fasteignamati: Sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn.
C - Allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu. Verður tekið til sérstakrar afgreiðslu undir lið 28.1

3. Lóðarleiga; 1,0% af fasteignamati lóða í eigu sveitarfélagsins. Þó getur sveitarstjórn ákveðið annað leiguhlutfall eða álagningu í krónutölu á hvern fermetra lóðar við sérstakar aðstæður.

4. Vatnsgjald; skv. sérstakri gjaldskrá.

5. Aukavatnsgjald skv. sérstakri gjaldskrá.

6. Tengigjöld í Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps er samkvæmt sérstakri gjaldskrá.

7. Fráveitugjald á Hellu; 0,25% af fasteignamati húss og tilh. lóðar skv. sérstakri gjaldskrá.

8. Gjöld fyrir tæmingu rotþróa eru samkvæmt sérstakri gjaldskrá.

9. Sorphirðu- og sorpeyðingargjöld skv. sérstakri gjaldskrá.

Gjalddagar liða nr. 2, 3, 4, 7, 8 og 9 eru 1/2, 1/3, 1/4, 1/5, 1/6, 1/7, 1/8 og 1/9 2022. Þar sem fasteignagjöld verða samtals kr. 35.000 eða lægri skal þó aðeins vera einn gjalddagi; 1/5 2022. Einnig gefst aðilum kostur á að greiða fasteignagjöldin í einu lagi og skal gjalddagi vera eigi síðar en 1/6 2022. Eindagi er síðasti virki dagur í sama mánuði og gjalddagi.

Fasteignaeigendum 67 ára og eldri og öryrkjum 75% og meira, sem búa í eigin íbúðarhúsnæði, skal veittur afsláttur af fasteignaskatti og fráveitu-og rotþróargjaldi af viðkomandi íbúðarhúsnæði skv. reglum samþ. af sveitarstjórn.

10. Leyfisgjöld vegna hunda- og kattahalds er samkvæmt sérstakri gjaldskrá.

11. Byggingarleyfisgjöld, afgreiðslu-, úttekta og mælingagjöld skipulags- og bygginganefndar og skipulags- og byggingafulltrúa leggjast á skv. sérstakri gjaldskrá. Gjalddagar eru dags. reikninga og eindagar 30 dögum síðar.

Að öðru leyti gilda lög um tekjustofna sveitarfélaga og gjaldskrár um viðkomandi tekjuliði. Samþykkt þessi um álagningarprósentur, afslætti og gjaldskrár skal birt á heimasíðu Rangárþings ytra.

Samþykkt samhljóða.

19.Tillaga að reglum um afslætti til elli- og örorkulífeyrisþega árið 2022

2111044

Til afgreiðslu
Lögð fram tillaga að reglum um afslætti til elli- og örorkulífeyrisþega fyrir árið 2022.

Samþykkt samhljóða.

20.Kjör kjörinna fulltrúa og greiðslur fyrir nefndarstörf

1706013

Til afgreiðslu
Tillaga er um að kjör kjörinna fulltrúa og greiðslur fyrir nefndarstörf verði óbreytt frá því sem þau hafa verið frá 1. nóvember 2016 sbr. samþykktir sveitarstjórnar þar um.

Samþykkt samhljóða og í samræmi við ábendingu sem fram kom að fara þyrfti yfir fyrirkomulag greiðslna til varamanna var sveitarstjóra falið að kanna málið og upplýsa sveitarstjórn á næsta fundi.

21.Rekstraráætlun Félags- og skólaþjónustu 2022

2111039

Til afgreiðslu.
Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti fyrir sitt leyti fjárhagsáætlanir skólaþjónustu, félagsþjónustu, málaflokks fatlaðs fólks og heimaþjónustu fyrir rekstrarárið 2022.

Samþykkt samhljóða.

22.Rekstraráætlun 2022 - Tónlistarskólinn

2111007

Til afgreiðslu.
Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti fyrir sitt leyti rekstraráætlun og skiptingu framlaga fyrir Tónlistarskóla Rangæinga bs fyrir árið 2022.

Samþykkt samhljóða.

23.Rekstraráætlun Sorpstöð 2022

2111003

Til afgreiðslu.
Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti fyrir sitt leyti rekstraráætlun fyrir Sorpstöð Rangárvallasýslu bs fyrir árið 2022.

Samþykkt samhljóða.

24.Fjárhagsáætlun Vatnsveitu 2022

2110140

Til afgreiðslu.
Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti fyrir sitt leyti rekstraráætlun fyrir Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps bs fyrir árið 2022.

Samþykkt samhljóða.

25.Rekstraráætlun 2022 - Suðurlandsvegur 1-3 hf

2109027

Til afgreiðslu.
Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti fyrir sitt leyti rekstraráætlun Suðurlandsvegar 1-3 hf rekstrarárið 2022.

Samþykkt með 4 atkvæðum (BG,HE,HP,ÁS) 3 voru á móti (MHG,MHJ,YH).


Bókun Á-lista
Undirrituðum finnst óboðlegt að enn eitt árið leggi stjórn Suðurlandsvegar 1-3 hf. fram rekstraráætlun sem gerir ráð fyrir rekstrartapi félagsins, í þetta sinn um tæpar 12 milljónir fyrir árið 2022 og áframhaldandi neikvæðri afkomu í langtímaáætlun 2023-2025. Miðað við útkomuspá árið 2021 er ljóst að taprekstur Suðurlandsvegar 1-3 hf. árin 2010-2021 er yfir 200 milljónir króna!
Á 37. fundi sveitarstjórnar 10. maí 2017 samþykkti sveitarstjórn samhljóða tillögu Á-lista um að selja hlut Rangárþings ytra í Suðurlandsvegi 1-3 hf. Undirrituð furða sig á að sveitarstjóri hafi ekki framfylgt ákvörðun sveitarstjórnar og hvetja sveitarstjóra til að vinna að alvöru að því að selja þennan hluta. Undirrituð hafa fulla trú á að hægt verði að snúa rekstrinum við til hins betra í höndum einkaaðila. Það er ekki lögboðið hlutverk sveitarfélaga að eiga og reka verslunar- og þjónustuhúsnæði og væri þessum fjármunum betur varið t.d. í byggingu nýs leik- og grunnskóla eða í aðrar aðkallandi fjárfestingar í grunnþjónustu sveitarfélagsins.
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Yngvi Harðarson
Magnús Hrafn Jóhannsson


Bókun D-lista:
Rekstur Suðurlandsvegar 1-3 hf hefur gengið betur með hverju árinu og er nú svo komið að öll rými í húsinu eru í nýtingu og fá færri pláss en vilja. Rekstrartap er tilkomið vegna afskrifta. Eignarhluturinn hefur verið kynntur fyrir fjárfestum og mun því verða haldið áfram og sjálfsagt að skoða öll tilboð með opnum huga.
Rétt er að benda á að sveitarfélagið hefur ekki greitt neitt með rekstri fasteignafélagsins síðustu árin en eigendur fasteignafélagsins lögðu inn aukið hlutafé á árunum 2015-2017 til að fjármagna innréttingu á efstu hæð hússins og koma henni í gagnið. Því er lokið og tókst vel. Við erum því bjartsýn á framtíð þessarar verslunar- og þjónustumiðstöðvar sem Miðjan er.
Björk Grétarsdóttir
Haraldur Eiríksson
Hugrún Pétursdóttir
Ágúst Sigurðsson

26.Rekstraráætlun 2022 - Oddi bs

2105037

Til afgreiðslu.
Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti fyrir sitt leyti rekstraráætlun fyrir Odda bs fyrir árið 2022.

Samþykkt samhljóða.

27.Rekstraráætlun 2022 - Húsakynni bs

2110138

Til afgreiðslu.
Lagt er til að sveitarstjórn staðfesti fyrir sitt leyti rekstraráætlun fyrir Húsakynni bs fyrir árið 2022.

Samþykkt samhljóða.

28.Fjárhagsáætlun 2022-2025

2106065

Seinni umræða
28.1 Fjárhagsáætlun 2022 - tillögur til endanlegrar afgreiðslu.

Hér eru erindi og tillögur sem á árinu 2021 var vísað til umfjöllunar við gerð fjárhagsáætlunar 2022 og hafa þar hlotið umræðu en eftir er að taka til endanlegrar afgreiðslu í tengslum við framlagða fjárhagsáætlun. Erindin eru listuð í málnúmeraröð.

Málnr. 2001003 Árbæjarkirkjugarður girðing
Fyrir liggur ósk frá sóknarnefnd Árbæjarkirkju um styrk að upphæð 1.425.000 kr til verkefnisins á árinu 2022 og lagt er til að samþykkja styrkinn og byggir það á þeim viðmiðunarreglum sem í gildi eru milli Sambands Íslenskra Sveitarfélaga og Kirkjugarðaráðs.
Samþykkt samhljóða.

Málnr. 2003015 Málefni hestamanna við Hesthúsgötu á Hellu
Í samræmi við þær umsóknir sem liggja fyrir um þátttöku í verkefni um flutning eldra hesthúsahverfis á Rangárbakka er lagt til að áætla 75 mkr til verkefnisins á árinu 2022.
Samþykkt samhljóða.

Málnr. 2103033 Stækkun kirkjugarðs Hábæjarkirkju
Erindi liggur fyrir frá sóknarpresti og sóknarnefnd Hábæjarkirkju í Þykkvabæ varðandi stækkun kirkjugarðsins í samræmi við viðmiðunarreglur Kirkjugarðaráðs og Sambands Íslenskra Sveitarfélaga. Endanleg kostnaðaráætlun fyrir verkefnið liggur ekki fyrir en lagt er til að gera ráð fyrir 2 mkr á fjárhagsáætlun til verksins árið 2022.
Samþykkt samhljóða.

Málnr. 2106024 Tillaga Á-lista um frístundastyrki
Fulltrúar Á-lista í sveitarstjórn Rangárþings ytra leggja til að komið verði á fót frístundastyrkjum barna og ungmenna frá og með næstu áramótum.

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Steindór Tómasson
Yngvi Harðarson

Tillögunni hafnað með 4 atkvæðum (BG,HE,HP,ÁS), 3 voru samþykkir (MHG,MHJ,YH).

Bókun D-lista:
Á undanförnum árum hefur verið farin sú leið hér í sveitarfélaginu að gera beina styrktarsamninga við félög sem sinna æskulýðsstarfi. Með þeim hætti hefur verið hægt að halda öllum þátttökugjöldum í lágmarki þannig að allir eigi þess kost að taka þátt í því sem hér er í boði. Ef breyta ætti þessu fyrirkomulagi og vera með beina frístundastyrki til iðkenda þá þyrfti samhliða að endurskoða þetta fyrirkomulag. Við teljum ekki rétt að gera það að sinni enda hefur þetta reynst ágætlega að því er við best vitum.
Björk Grétarsdóttir
Haraldur Eiríksson
Hugrún Pétursdóttir
Ágúst Sigurðsson

Bókun Á-lista
Fulltrúar Á-lista í sveitarstjórn harma þessa niðurstöðu meirihluta. Að veita frístundastyrki er margreynd aðferðafræði margra sveitarfélaga og hefur reynst vel.
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Yngvi Harðarson
Magnús Hrafn Jóhannsson


Málnr. 2106044 Fasteignamat 2022
Lagt er til að fasteignaskattur vegna atvinnuhúsnæðis í C-flokki lækki úr 1.65% í 1.5 % árið 2022. Tillagan er sett fram til þess að koma til móts við atvinnurekendur í sveitarfélaginu og til að hvetja til byggingar atvinnuhúsnæðis en sveitarfélagið hefur nú m.a. skipulagt og undirbúið nýtt framtíðarhverfi með atvinnu-, þjónustu-, og iðnaðarlóðum sunnan Suðurlandsvegar við Hellu. Reiknað er með að hefja gatnagerð og úthlutun lóða fljótlega á nýju ári.
Samþykkt samhljóða.

Málnr. 2110002 frá heilsu-, íþrótta- og tómstundanefnd
Heilsu,- íþrótta- og tómstundanefnd lagði til að sérstaklega yrði veitt fjármagn til þriggja verkefna á næsta ári þ.e. Skate Park Hella, Útisvæði á Hellu og Heilsueflandi samfélag. Samþykkt að áætla 15.000.000 kr í fjárfestingu fyrir Skatepark og opin svæði og 2.000.000 kr í Heilsueflandi samfélag.
Samþykkt samhljóða.

Málnr. 2110004 frá atvinnu- jafnréttis- og menningarmálanefnd
Atvinnu- jafnréttis- og menningarmálanefnd lagði fram minnisblað með tillögu um áhersluverkefni í forgangsröð. Lagt er til að setja fjármuni í eftirfarandi verkefni í fjárhagsáætlun 2022: Töðugjöld 2.200.000 kr; 17-júní 800.000 kr; Rangárþing Ultra 500.000 kr; Þróun áfangastaða deiliskipulag 3.000.000 kr; Fræðsluskilti og þjónustuskilti á Hellu 2.000.000 kr; Uppskeruhátíð 200.000 kr; Helluþon 600.000 kr.
Samþykkt samhljóða.

Málnr. 2110064 Styrkbeiðni frá Rangárbökkum ehf vegna undirbúnings LM 2020
Lagt er til að styrkja Rangárbakka ehf um 2.000.000 kr til undirbúnings Landsmóts Hestamanna 2022.
Samþykkt samhljóða.


28.2 Fjárhagsáætlun 2022-2025 lögð fram til afgreiðslu

Áætlaðar heildartekjur Rangárþings ytra (A og B hluta) árið 2022 nema alls 2.527 mkr. Rekstrargjöld eru áætluð 2.062 mkr. og þar af reiknaðar afskriftir 130 mkr. Fjármagnsgjöld eru áætluð 108 mkr. Rekstrarniðurstaða er áætluð jákvæð um 227 mkr.

Veltufé frá rekstri er 308 mkr. Í eignfærða fjárfestingu A og B hluta verður varið 560 mkr. og afborgun lána 181 mkr. Gert er ráð fyrir eignasölu að upphæð 156 mkr og nýrri lántöku að upphæð 200 mkr. á árinu 2022 vegna hönnunar og framkvæmda við skólasvæði á Hellu. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 2022 alls 1.979 mkr og eigið fé 2.503 mkr. Eignir í árslok eru áætlaðar 4.482 mkr.

Framlegðarhlutfall 2022 er áætlað 18,4

Veltufjárhlutfall 2022 er áætlað 0,71

Eiginfjárhlutfall 2022 er áætlað 0,52

Rekstrarjöfnuður þriggja ára skv. sveitarstjórnarlögum er áætlaður jákvæður um 366 mkr.

Reiknað skuldaviðmið samkvæmt sveitarstjórnarlögum verður 62,5% á árinu 2022 og skuldahlutfallið 78,3%.

Fjárhagsáætlun áranna 2022-2025 er borin undir atkvæði og samþykkt með 4 atkvæðum (BG,HE,HP,ÁS), 3 voru á móti (MHG,MHJ,YH).

Bókun Á-lista
Fulltrúar Á-lista í sveitarstjórn Rangárþings ytra hafa aðrar áherslur en fulltrúar D-lista í ráðstöfun fjármagns og eigna sveitarfélagsins á komandi ári. Tekjur sveitarfélagsins hafa undanfarin ár verið umfram áætlanir en á móti gengur erfiðlega að halda niðri rekstrarkostnaði þess. Því er full ástæða til þess að skoða reksturinn frá öllum hliðum og er verkbókhald, sem hefur verið í innleiðingu í tæp þrjú ár, einn liður í því. Sveitarfélagið skuldar enn mjög mikið, þrátt fyrir auknar tekjur og útlit er fyrir auknar lántökur á næstu árum vegna byggingu nýs leik- og grunnskóla. Því ætti að leggja aukinn þunga í að selja eignir sem ekki nýtast til lögboðinnar starfsemi, til þess að minnka lántökuþörf. Litlar sem engar umræður hafa verið í sveitarstjórn í vinnu þessarar fjárhagsáætlunar, en svokallaðir vinnufundir um fjárhagsáætlun hafa að mestu farið í kynningu á tölulegum upplýsingum sem væntanlega endurspegla áherslur fulltrúa D-lista.
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Yngvi Harðarson
Magnús Hrafn Jóhannsson


Sveitarstjórn þakkar starfsfólki sveitarfélagsins fyrir mjög gott starf við undirbúning og gerð fjárhagsáætlunarinnar. Jafnframt vill sveitarstjórn nota tækifærið og þakka öllu starfsfólki sveitarfélagsins fyrir vel unnin störf á árinu með ósk um gleðileg jól og farsæld á nýju ári.

29.Fundaáætlun sveitarstjórnar og byggðaráðs 2022

2112011

Til afgreiðslu.
Lögð fram tillaga að fundaáætlun sveitarstjórnar, byggðarráðs og skipulags- og umferðarnefndar til loka yfirstandandi kjörtímabils árið 2022.

Samþykkt samhljóða

30.Hjóla- og göngustígur Hella-Hvolsvöllur

2108027

Tillaga um framhald verkefnisins.
Fyrir liggur greinargerð vinnuhóps um mögulegan hjóla- og göngustíg milli þorpanna. Sem næstu skref í fýsileikakönnun á framkvæmdinni er lagt til að sveitarfélögin sæki um styrk til Vegagerðarinnar og Landsnets. Þegar niðurstaða liggur fyrir varðandi slíka styrki væri staðan tekin að nýju varðandi framhald málsins.

Samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að vinna málið áfram.

31.Skoðun á sameiningu sveitarfélaga

1612055

Erindi frá Skaftárhreppi með ósk um að kanna möguleika til sameiningar sveitarfélaganna Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra og Rangárþings ytra.
Afgreiðslu erindisins var frestað á síðasta fundi sveitarstjórnar og ákveðið að láta fyrst fara fram könnun á afstöðu íbúa í Rangárþingi ytra til sameiningar þessara sveitarfélaga. Í millitíðinni hafði sveitarstjórn Mýrdalshrepps ákveðið að taka ekki þátt í slíkum sameiningarviðræðum að sinni. Niðurstöður könnunar sem Maskína ehf framkvæmdi fyrir sveitarfélagið dagana 1.-8. desember liggja nú fyrir.

Gerð var könnun meðal íbúa í Rangárþingi ytra og náði könnunin til 978 en 603 svöruðu könnuninni eða 61,7% svarhlutfall. Niðurstöður urðu þessar:

Hefja viðræður um sameiningu við Skaftárhrepp og Rangárþing eystra: 21,2%
Hefja viðræður um sameiningu einungis við Rangárþing eystra: 35,3%
Hætta frekari viðræðum að sinni um að sameinast öðrum sveitarfélögum: 43,4%

Niðurstöðurnar gefa til kynna að ekki sé mikill áhugi fyrir því að taka þátt í þeim viðræðum sem Skaftárhreppur óskar eftir. Sveitarstjórn hafnar því erindi Skaftárhrepps.

Samþykkt samhljóða.

32.Samþykkt um vatnsvernd á Suðurlandi

2111052

Bréf frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands varðandi nýja samþykkt um vatnsvernd.
Sveitarstjórn Rangárþings ytra gerir ekki athugsemdir við nýja samþykkt um vatnsvernd á Suðurlandi.

Samþykkt samhljóða.

33.Viðbragðs- og aðgerðaáætlun vegna COVID19 - Rangárþing ytra

34.Samband Ísl. Sveitarfélaga - 903 fundur

2112026

Fundargerð frá 26112021
Til kynningar.
Fundagerðin yfirlesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 18:00.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?