Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri, við Ægissíðufoss.
Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri, við Ægissíðufoss.

Frá sveitarstjóra 23. desember 2018

Fjárhagsáætlun

Á sveitarstjórnarfundi nú á miðvikudaginn 13 desember fór fram seinni umræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár. Áætlaðar heildartekjur samstæðu Rangárþings ytra árið 2019 nema alls 1.919 mkr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 1.692 mkr, þar af eru reiknaðar afskriftir um 118 mkr, og framlegðarhlutfallið því 18% sem telst þokkalega ásættanlegt. Fjármagnsgjöld eru áætluð um 114 mkr og rekstrarniðurstaðan því áætluð jákvæð um 113 mkr og veltufé frá rekstri um 290 mkr. Gert er ráð fyrir eignfærðri fjárfestingu í samstæðunni að upphæð um 377 mkr og afborganir lána um 113 mkr en ekki er gert ráð fyrir að taka ný lán á árinu 2019. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 2019 alls 1.774 mkr og eigið fé 1.954 mkr og eiginfjárhlutfall þá komið í 0,52 en það hefur vaxið hratt á síðustu árum. Þá er gert ráð fyrir veltufjárhlutfallið verði um 0,85. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal s.k. þriggja ára rekstrarjöfnuður sveitarfélaga vera jákvæður og skuldaviðmið þeirra undir 150%. Þarna stöndum við ágætlega því þriggja ára rekstrarjöfnuður sveitarfélagsins er áætlaður jákvæður um 478 mkr og skuldaviðmiðið fer niður í 73% á árinu 2019. Fjárhagsáætlunin var samþykkt samhljóða í sveitarstjórninni.

Fjölgun íbúða

Kraftur hefur hlaupið í byggingu íbúða í sveitarfélaginu og eru nú 49 íbúðir í byggingu þar af um 30 á Hellu. Auk þessara íbúða sem framkvæmdir eru hafnar við þá er búið að úthluta lóðum undir margar til viðbótar. Stór hluti þessara íbúða er í raðhúsum og af þeirri gerð sem mest vöntun hefur verið á þ.e. minni og hagkvæmari einingar. Sveitarfélagið er að fjárfesta í 6 nýjum íbúðum í jafnmörgum raðhúsum og eru þær allar komnar af stað. Reiknað er með að fyrstu íbúðirnar verði afhentar fyrir páska. Munu þær m.a. leysa af eldri félagslegar íbúðir á Þrúðvangi 31, sem nú hafa verið seldar. Til að mæta aukinni eftirspurn eftir lóðum var ráðist í að klára gatnagerð í framhaldi af Langöldu og ljúka við deiliskipulag Ölduhverfisins á Hellu. Gatnagerð er komin langt á veg við Langöldu og Sandöldu enda fyrstu húsin þegar risin.

Mikið byggt

Auk þess sem verið er að byggja íbúðir er víða staðið í framkvæmdum í sveitarfélaginu. Mikið er um framkvæmdir við gistirými til útleigu til ferðamanna auk annarrar uppbyggingar á skipulögðum lóðum í dreifbýli t.a.m. á Grenjum og Meiritungu í Holtum og Gaddstöðum við Hróarslæk. Þá er að rísa glæsileg hótelbygging í Heysholti í Landsveit sem reiknað er með að hefji rekstur á næsta ári auk margvíslegra bygginga sem tengjast landbúnaði m.a. myndarleg fjósbygging í Lambhaga á Rangárvöllum. Margt fleira mætti nefna en tek þetta sem dæmi um kraftinn í fólki hér um slóðir.

Ný leikskóladeild við Heklukot

Undirbúningur fyrir aukna aðstöðu leikskólans Heklukots stendur nú yfir en nokkrar tafir urðu á því að plássið sem nýta á við Þrúðvang 18 losnaði. Reiknað er með að opna nýja leikskóladeild í síðasta lagi 1. mars á næsta ári. Einnig er gert ráð fyrir að færa skrifstofur og sérkennslurými úr nýjasta hluta leikskólans yfir á Þrúðvang 18 og skapa þannig meira rými. Þetta er gert til að svara aukinni þörf eftir leikskólaplássi en stutt er síðan ný leikskóladeild var opnuð við Leikskólann á Laugalandi og sú ánægjulega staðreynd því ljós að íbúum er að fjölga hér á okkar svæði. Sveitarstjórn er síðan að leggja drög að byggingu á nýjum leikskóla á Hellu en gert er ráð fyrir að það verk verði skipulagt á næstu misserum og undirbúningsvinna hafin. Fjárfesting í nýjum leikskóla krefst vandaðs undirbúnings því mikilvægt er að byggt sé til framtíðar og gert ráð fyrir áframhaldandi vexti byggðarlagsins og þróun skólastarfs auk þess að velja hagkvæmar leiðir við framkvæmdir.

Viðbygging íþróttahúss

Fjárhagsáætlun næsta árs gerir ráð fyrir framkvæmdum við áhaldageymslu við Íþróttahúsið á Hellu. Upphaflega stóð til að byggja mjög einfalda viðbyggingu á einni hæð en hugmyndin hefur þróast og ákveðið hefur verið að nota tækifærið og hafa bygginguna í fullri hæð þannig að hægt sé að bæta við millilofti. Það skapar möguleika til að bæta aðstöðu fyrir líkamsrækt, búningsklefa o.fl. Hönnun er langt komin og verið að vinna í áætlanagerð en um er að ræða viðbyggingu úr límtré og yleiningum líkt og íþróttahúsið sjálft. Reiknað er með að framkvæmdir geti hafist snemma vors.

Heitt og kalt vatn

Til að fylgja öllum þessum framkvæmdum þarf að byggja upp grunneiningar eins og veitur fyrir heitt og kalt vatn. Miklar framkvæmdir eru framundan hjá Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps sem þjónustar íbúa með neysluvatn. Verið er að leggja lokahönd á hönnun endurbóta stofnkerfis vatnsveitunnar og miðlunarmannvirki til að tryggja íbúum og fyrirtækjum öruggt og gott neysluvatn til framtíðar. Um langtímaverkefni er að ræða en á næstu 3 árum verði þó mestur þungi í framkvæmdum og er unnið út frá s.k. Lækjarbotnaveitu sem lykilvatnstökustað með miðlunartank í Hjallanesi og stofnlögnum að Bjálmholti. Stefnt er að því að bjóða þetta verk út núna í vetur og hefja framkvæmdir næsta vor. Veitur, sem eru opinbert hlutafélag í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, reka  hitaveitu í Rangárþingi ytra. Félagið hefur staðið í miklum borunarframkvæmdum til að bæta öflun á heitu vatni á svæðinu en því miður hefur það ekki skilað nægilega góðum árangri enn sem komið er. Skortur á heitu vatni hefur þannig leitt til skömmtunaraðgerða á síðustu misserum m.a. með því að loka sundlaugum í sýslunni tímabundið. Þetta er auðvitað ófremdarástand og mikið í húfi að Veitum takist að afla tryggara vatns í nánustu framtíð. Ef ekki tekst að finna það hér austan Þjórsár þá hlýtur að þurfa að skoða þann möguleika að sækja vestur yfir ánna þar sem nægar uppsprettur eru. Brú yfir Þjórsá við Árnes myndi auðvitað leysa þetta mál í einu vetfangi en sú framkvæmd tengist auðvitað fyrirhugaðri Hvammsvirkjun sem enn bíður.

Ferðamenn 

Fyrirtækið Rannsóknir og Ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf vann skýrslu um ferðamenn í Rangárþingi ytra 2008-2017 sem kynnt var m.a. á vettvangi Slagkrafts - samráðsfundar ferðaþjónustunnar í Rangárþingi ytra nú í haust. Samkvæmt skýrslunni er áætlað er að fjöldi gesta í Rangárvallasýslu hafi rúmlega fjórfaldast á tímabilinu 2008 til 2017, úr 386 þúsund í 1.576 þúsund manns. Þá er talið að Íslendingar hafi verið 41% gesta þar árið 2008 en erlendir ferðamenn 59%. Árið 2017 er hins vegar áætlað að erlendir ferðamenn hafi verið í 88% gesta en Íslendingar 12%. Jafnframt er áætlað að 550 þúsund ferðamenn hafi haft einhverja viðkomu á Hellu árið 2017, 164 þúsund farið í Landmannalaugar, 115 þúsund komið nærri Heklu, 99 þúsund farið um Þykkvabæ, 54 þúsund haft viðkomu í Hrauneyjum, 18 þúsund í Nýjadal og 14 þúsund í Veiðivötnum. Þessar tölur gefa sterklega til kynna þau margvíslegu tækifæri sem liggja hjá ferðaþjónustunni á okkar svæði. Við þurfum bara að vera dugleg að nýta þessi tækifæri og fá fólk til að dvelja lengur hjá okkur.

Samgöngumál

Ólafur Kr. Guðmundsson umferðaröryggsfræðingur var fenginn til að vinna skýrslu um vegamál í sveitarfélaginu sem kynnt var m.a. á opnum fundi samgöngu- og umferðarnefndar sveitarfélagsins nú í haust. Skýrslan inniheldur ótal mikilvæg atriði sem snerta stöðu öryggismála allra helstu vega innan sveitarfélagsins auk þess að greina hvert almennt ástand þeirra telst vera. Hún er að stórum hluta unnin með því að aka alla vegi á sérútbúnum bíl og taka aðstæður og vegi upp á myndband auk þess að safna saman öllum tiltækum tölulegum gögnum um slys og umferðarþunga. Samkvæmt úttektinni er sláandi hversu mjög malarvegir eru algengir í vegakerfi héraðsins og hlutfallslega lítið um vegklæðningu á tengivegum. Þarna kemur berlega fram hvað leggja ber áherslu á varðandi úrbætur í samgöngumálum innan sveitarfélagsins almennt á næstu árum. Þessu hefur verið fylgt fast eftir nú á síðustu vikum m.a. með bréfaskriftum og frekari fundahöldum með samgönguyfirvöldum. En betur má ef duga skal og eina leiðin er að hamra stöðugt á þessu og fylgja eftir með öllum tiltækum ráðum - hér þarf að koma klæðningu á malarvegina.   

Oddabrú

Góðir hlutir gerast hægt stendur einhversstaðar. Vegtenging milli Odda á Rangárvöllum yfir á Bakkabæi með brú yfir Þverá hefur verið á dagskránni í marga áratugi. Fyrir utan þá augljósu samgöngubót  sem af þessu hlýst þá er hér um mikið öryggisatriði að ræða komi til þess að rýma þurfi svæði austan Þverár vegna náttúruhamfara. Skriður komst á þessi mál nú fyrir tveimur árum síðan og er nú svo komið að í góðu samstarfi sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar er þetta að verða að veruleika. Hagkvæm 92 m löng brú er í byggingu og unnið er að því að leggja veg þennan 2 km spotta sem er frá Oddastað niður að Þverá. Verði tíðarfarið í vetur áfram með þeim hætti sem nú er þá eru miklar líkur til þess að framkvæmdum ljúki fyrir sumarið. Þá verða sannarlega veruleg þáttaskil í öryggis- og samgöngumálum héraðsins.

Brunavarnir

Það hefur lengi verið ljóst að bæta þarf aðstöðu fyrir slökkvilið Brunavarna Rangárvallasýslu á Hellu. Aðstaðan á jarðhæð við Laufskála 2 er barn síns tíma og svarar ekki lengur þeim kröfum sem gerðar eru til þessarar mikilvægu starfsemi. Stjórn Brunavarna Rangárvallasýslu hefur því ályktað um að færa starfsemina á betri stað og hefur lagt til við eigendur byggðasamlagsins að festa kaup á hluta iðnaðarhúss sem er í undirbúningi í austasta hluta Dynskála á Hellu. Um er að ræða 4 bil í samskonar húsi og  Brunavarnir Árnessýslu hafa yfir að ráða fyrir slökkvilið sitt í Árnesi. Reiknað er með að þessi tillaga verði lögð fyrir sveitarstjórnir til afgreiðslu nú í janúar.

Tæming rotþróa

Nú er lokið kortlagningu á rotþróum í Rangárþingi ytra sem starfsmenn þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins hafa unnið að á síðustu misserum. Er þá ekkert að vanbúnaði að hægt verði að bjóða út samræmda tæmingu rotþróa hér um slóðir líkt og allvíða hefur verið tekið upp á síðustu árum enda sveitarstjórnum skylt að koma þessu á sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru. Með slíkri samræmdri tæmingu á að vera hægt að ná verulega niður kostnaði rotþróaeigenda við tæmingu auk þess sem stuðlað er að betri hollustuháttum og hreinlæti og bættri endingu rotþróa. Um er að ræða tæmingu á þriggja ára fresti sem grunnviðmiði. Stefnt er að því að útboð fari fram í vetur þannig að hefja megi samræmda tæmingu næsta sumar.

Úrgangsmál

Það eru gríðarlega spennandi tímar framundan í skipulagi sorpmála hér á okkar svæði. Eins og kunnugt er þá er sveitarfélagið okkar einn af eigendum Sorpstöðvar Rangárvallasýslu en þar hafa verið miklar framkvæmdir síðustu misserin við uppbyggingu móttökustöðvarinnar á Strönd. Þar er nú komin glæsileg aðstaða með stóru mótttökuhúsi og fullkomnu gámaplani til flokkunar. Stjórn sorpstöðvarinnar tók haustið 2017 þá djörfu ákvörðun að taka yfir sorpsöfnunina þegar þjónustusamningur við Gámaþjónustuna rann út í lok ársins. Fjárfest var í nýjum búnaði, fullbúnum tveggja hólfa sorpbíl, sérhæfðum gámabíl og tilheyrandi gámum og allt kom þetta til landsins með Mykinesinu til Þorlákshafnar. Samtímis þessari miklu breytingu var bætt við tunnu til að safna plasti við öll heimili og í sjálfu sér auðvelt að taka fleiri skref í átt til flokkunar t.d. hvað varðar lífrænan heimilsúrgang. Það á auðvitað eftir að koma í ljós hvernig þetta fyrirkomulag muni reynast en reksturinn þetta fyrsta árið bendir til að þetta geti orðið farsælt. 

Læt hér pistlaskrifum lokið að sinni og óska íbúum Rangárþings ytra gleðilegra jóla með þökkum fyrir liðið ár. Megi árið 2019 verða okkur öllum hagfellt og gæfuríkt.

Ágúst Sigurðsson

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?