Lagt til að kosið verði um sameiningartillögu á næsta ári

Verkefnishópur ,,Sveitarfélagsins Suðurlands“ hefur lagt til við sveitarstjórnir Ásahrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps að hafnar verði formlegar sameiningarviðræður sem lýkur með því að íbúar kjósa um sameiningu sveitarfélaganna á næsta ári. Sveitarstjórnirnar munu fjalla um tillöguna á fundum sínum í desember og taka endanlega ákvörðun.

Verkefnið Sveitarfélagið Suðurland hófst í desember 2019 með það að markmiði að leggja mat á það hvort hag íbúa sveitarfélaganna sé betur borgið í sameinuðu sveitarfélagi en í núverandi sveitarfélagaskipan. Til að svara þeirri spurningu var lagt mat á áhrif mögulegrar sameiningar á rekstur sveitarfélaganna, þjónustu, fjármál, gjaldtöku, skattlagningu og fleira sem varðar starfsemi sveitarfélaganna. Skipaðir voru starfshópar til að kortleggja stöðu, tækifæri, áskoranir og mögulega framtíðarsýn í málaflokkum. Einnig var leitað eftir sjónarmiðum íbúa á opnum íbúafundum og í könnun á viðhorfi þeirra til sameiningar. Upplýsingar um verkefnið má finna á svsudurland.is

Niðurstöður umræðna á íbúafundum og svör í viðhorfskönnun gefa vísbendingar um að vilji íbúanna sé að málið verði skoðað betur og þeim gefinn kostur á að kjósa um sameiningu þessara fimm sveitarfélaga.

Samþykki íbúar tillöguna verður til landstærsta sveitarfélag Íslands og þar af leiðandi stærsta skipulagsumdæmi landsins. Innan marka sveitarfélagsins yrði stór hluti hálendisins, Vatnajökulsþjóðgarður, merkar náttúruminjar og margir af helstu ferðamannastöðum landsins. Íbúar sveitarfélagsins yrðu um 5400.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?