Ný skipulagsreglugerð tekur gildi

Ný skipulagsreglugerð hefur tekið gildi en hún er sett á grundvelli skipulagslaga sem samþykkt voru á Alþingi haustið 2010.

Hér er um heildarendurskoðun á eldri skipulagsreglugerð að ræða. Markmið reglugerðarinnar líkt og skipulagslaga eru fjölþætt og lúta m.a. að þróun byggðar og landnotkunar, vernd landslags og náttúru og skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Meðal nýrra markmiða reglugerðarinnar er að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana og aukin áhersla er lögð á faglegan undirbúning mannvirkjagerðar við gerð skipulagsáætlana varðandi útlit bygginga, form og aðgengi fyrir alla.  

Meðal nýmæla í reglugerðinni eru þau að gerð er  breyting á landnotkunarflokkum en þeir fela í sér skilgreiningu á ráðstöfun lands til mismunandi nota. Þeir flokkar sem fjalla um takmörkun á landnotkun eru aðgreindir frá öðrum landnotkunarflokkum en þar er um að ræða svæði sem þarf að gæta sérstakrar varúðar vegna náttúruvár, friðlýst svæði og önnur svæði þar sem takmarkanir stafa af náttúruvernd, minjavernd, vatnsvernd eða hverfisvernd.  

Sett eru ákvæði um gerð skipulagslýsingar, en í henni er m.a. gerð grein fyrir þeim áherslum sem  sveitarfélag hefur við gerð skipulagsins. Sömuleiðis er kveðið á um hvernig kynningarferli í upphafi skipulagsvinnu skuli háttað. Gerð er nánari grein fyrir svæðisskipulagi og hlutverki svæðisskipulagsnefnda eins og fyrir svæðisskipulag höfuborgarsvæðins.

Kveðið á um að við gerð aðalskipulags þurfi sveitarstjórn að taka tillit til flokkunar svæða, þ.e. bið-, verndar- og orkunýtingaflokks í samræmi við áætlun um  um vernd- og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun).

Gerðar eru auknar kröfur um efni deiliskipulags auk ítarlegri krafna um framsetningu skipulagsskilmála. Einnig eru sett ákvæði um hverfisskipulag sem er tegund deiliskipulags fyrir hverfi sem þegar hafa verið byggð. Af öðrum ákvæðum má nefna að ekki eru lengur gerðar kröfur um lágmarksfjölda bílastæða og er það í samræmi við stefnu reglugerðarinnar um sjálfbæra þróun. Ennfremur eru gerðar breytingar á ákvæðum er kveða á um lágmarksfjarlægð milli bygginga og vega utan þéttbýlis sem og fjarlægð mannvirkja frá ám, vötnum og sjó.

Ný skipulagsreglugerð felur í sér skýrari og einfaldari framsetningu á þeim reglum sem gilda um gerð  og kynningu skipulags. Gerð er grein fyrir kröfum sem gilda um hinar mismunandi skipulagsáætlanir,  þ.e. svæðis-. aðal- og deiliskipulagáætlanir. Viðfangsefnum hvers skipulagsstigs er svo nánar lýst s.s. hvað varðar blöndun byggðar, endurheimt votlendis, efnistöku, efnislosun og urðun úrgangs, varúðarsvæði ásamt verndar- og orkunýtingaráætlun.

Skipulagsreglugerð nr. 90/2013

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?