Nýtt fyrirkomulag sorphirðu í Rangárvallasýslu

Bætt umhverfi - betri framtíð í Rangárþingi

Nú standa yfir breytingar í úrgangsmálum í Rangárþingi í kjölfars útboðs á sorphirðu.  Þann 24. október sl. undirrituðu fulltrúar Sorpstöðvar Rangárvallasýslu þjónustusamning við forsvarsmenn Gámakó ehf. (dótturfyrirtæki Gámaþjónustunnar hf.) vegna sorphirðu í Rangárvallasýslu.

Í samstarfi við Gámakó hafa sveitarfélögin sem standa að Sorpstöð Rangárvallasýslu ákveðið að stórauka endurvinnslu og endurnýtingu með því að leggja til svokallaða Blátunnu (Endurvinnslutunnu) fyrir hvert heimili í sveitarfélögunum.  Einnig munu sveitarfélögin leggja til tunnu fyrir annan heimilisúrgang fyrir þau heimili sem ekki eru með slíka tunnu fyrir.

Starfsmenn sveitarfélaganna munu dreifa þessum tunnum nú í nóvember og eru íbúar hvattir til að finna góða staðsetningu með það í huga að auðvelda aðkomu að sumri sem vetri. Miðað er við að fjarlægð íláta við íbúðarhús sé ekki meira en 20 metrar frá söfnunarbíl.  Mjög mikilvægt er að tunnur séu vel varðar fyrir veðri en jafnframt er mikilvægt að þessar varnir séu ekki hindrun fyrir þá sem sorphirðunni sinna.

Nýtt sorphirðukerfi með hinum nýja þjónustuaðila mun byrja 1. desember nk.

 

Öll heimili með tvær tunnur

Tunnurnar verða tvær (240 l.) við hvert heimili, önnur fyrir óflokkaðan úrgang og hin fyrir það sem fer til endurvinnslu.  Í byrjun verður það allur pappír og pappi sem til fellur á heimilunum sem fer í Endurvinnslutunnuna.  Heimili  hafa ýmist verið með tunnu, poka eða gám í nágrenni fyrir óflokkaðan heimilisúrgang allt eftir staðsetning heimila. Tunnurnar koma nú í stað poka og gáma. Tunna fyrir óflokkaða úrgang verður losuð á tveggja vikna fresti en tunna fyrir endurvinnsluefni verður losuð á sex vikna fresti.  

 

Aðrar breytingar og kynning fyrir íbúum og hagsmunaaðilum

Kynningarefni verður dreift í nóvembermánuði til íbúa og hagsmunaaðila og eins verða haldnir kynningarfundir.  Þessir fundir verða auglýstir síðar.  Í þessu kynningarefni verður nánar greint frá því hvernig þjónustu við sumarhús og fyrirtæki verður háttað auk þess sem nýtt fyrirkomulag á rekstri gámavalla (flokkunarstöðva) verður kynnt.

Með þessum breytingum eru stigin fyrstu skrefin af mörgum sem sveitarfélögin ætla  að stíga í átt að bættu umhverfi og betri framtíð til hagsbóta fyrir sveitarfélögin og alla íbúa.

Meðfylgjandi mynd er frá undirritun samningsins við Gámakó.  F.v. Sveinn Hannesson framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar, Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri Rangárþings eystra, Ágúst Ingi Ólafsson formaður sorpstöðvar Rangárvallasýslu, Eydís Þ. Indriðadóttir oddviti Ásahrepps og Gunnsteinn R. Ómarsson sveitarstjóri Rangárþings ytra.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?