Þingvellir
Þingvellir

Viðmið við mat á verkefnum á dagskrá aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Kallað er eftir tillögum að verkefnum á dagskrá aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018.

Lögð er áhersla á fjölbreytt og vönduð verkefni með nýstárlega nálgun. Litið verður til verkefna sem:
 minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands og/eða hafa skírskotun til þess þáttar í sögu þjóðarinnar.
 fjalla um og/eða byggja á fullveldishugtakinu, hvort heldur er í fortíð, nútíð eða framtíð.
 hvetja til samstarfs.
o Samstarf getur verið þvert á greinar, milli landsvæða, aldurshópa, þjóðfélagshópa, landa, ólíkra stofnana og félagasamtaka.
 höfða til barna og ungs fólks og eru til þess fallin að auka þekkingu og innsýn þeirra í söguna, samfélagið og fullveldishugtakið.
 höfða til fjölbreytts hóps fólks og hvetja til almennrar þátttöku.
 draga fram áhugaverða samlíkingu milli fortíðar og nútíðar í sögu lands og þjóðar, s.s. í menntun, heilbrigðismálum, náttúru, umhverfismálum, vísindum, stjórnmálum, atvinnuþróun, samgöngum og í daglegu lífi fólks.
 hafa nýstárlega nálgun á þjóðararfinn og/eða á viðfangsefnið.
 eru til þess fallin að vekja athygli á sérstöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.

Ofangreindar verkefnaáherslur útiloka ekki verkefni af öðrum toga hafi þau skírskotun til tilefnisins.

Verkefni sem síður er litið til: Útgáfuverkefni, s.s. undirbúningur eða útgáfa bóka, starfslaun, útgáfa geisladiska eða rafræn (stafræn) útgáfa eða gerð sjálfstæðs námsefnis. Verkefni sem fela í sér skráningu upplýsinga eða skráningu á menningarminjum. Slíkt fellur utan afmælisársins. Ekki eru veittir beinir stofn- eða rekstrarstyrkir.

Við mat á verkefnum verður litið til gæða þeirra, vandaðra áætlana, landfræðilegrar dreifingar auk þeirra áherslna sem fram hafa komið. Umsækjandi er ábyrgðaraðili gagnvart framkvæmd verkefnisins.

Verkefnin skulu fara fram á tímabilinu janúar-desember 2018. Styrkir til valinna verkefna geta numið allt að 3 milljónum króna, þó ekki meiru en 50% af heildarkostnaði við verkefnið.

Gerður verður skriflegur samningur um verkefnin þar sem m.a. er kveðið á um fyrirkomulag greiðslna, kynningarmál og notkun á merki afmælisársins. Framlög má greiða í tvennu lagi, við upphaf verkefnis og lok þess. Ef ekkert verður af verkefninu fellur framlagið niður. Verði verulegar breytingar á verkefninu, án samþykkis, er framlagið afturkræft að hluta eða öllu leyti.

Frestur til að skila inn tillögum að verkefnum er til 22. október kl. 16. Tillögum skal skilað rafrænt gegnum vefsíðu afmælisársins, www.fullveldi1918.is.
Frekari upplýsingar veitir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri, netfang: fullveldi1918@fullveldi1918.is eða í síma 563 0915.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?