Guðmundur Svavarsson framkvæmdarstjóri Reykjagarðs.
Guðmundur Svavarsson framkvæmdarstjóri Reykjagarðs.
Sögu Reykjagarðs má rekja til ársins 1971 og fagnar félagið því 50 ára afmæli á árinu. Fljótlega beindist áherslan að kjúklingaeldi, slátrun og vinnslu kjúklingaafurða. Í dag er Reykjagarður stærsti framleiðandi kjúklingaafurða á Íslandi og skilgreinir sig sem markaðsdrifið fyrirtæki í alifuglabúskap og matvælaframleiðslu. Félagið er í 100% eigu Sláturfélags Suðurlands.
 
Megin þættir starfseminnar felast í stofnfuglarækt, útungun, kjúklingaeldi, slátrun, vinnslu, fulleldun, sölu- og markaðsstarfi.
Hjartað í starfseminni er í Rangárþingi, þar sem félagið rekur umfangsmikið eldi og stofnfuglarækt að Ásmundarstöðum, í Meiri-Tungu, Hellatúni og á Jarlsstöðum og útungunarstöð, sláturhús og vinnslu á Hellu. Auk starfsemi hér er fyrirtækið ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við aðra með kjúklingaeldi í Árnessýslu, Borgarfirði, Hrútafirði og Grindavík. Í Garðabæ er rekið framleiðslueldhús og söludeild í Reykjavík.
 
Heildarstarfsmannafjöldi er 120-130 og þar af 70-80 á Hellu við útungun, slátrun og vinnslu. Auk þess byggja nokkrir verktakar, þjónustuaðilar og bændur á svæðinu starfsemi sína að meira og minna leiti á samstarfi við Reykjagarð.
 
Þekktasta vörumerki Reykjagarðs er HOLTA vörumerkið, sem stendur fyrir 100% kjúkling, hágæða hreina afurð. KJÖRFUGL stendur fyrir betri kaup en samt hvergi er slakað á gæðakröfum og HEIMSHORN HOLTA er fjölbreytt lína fulleldaðra kjúklingaafurða, sem tilbúnar eru til neyslu. Auk eigin vörumerkja framleiðir Reykjagarður kjúklingaafurðir sem markaðssetar eru undir merkjum samstarfsaðila. Einnig fer stór hluti framleiðslunnar til stóreldhúsa, mötuneyta, veitingahúsa og skyndibitastaða. Ýmist sem hráefni eða fullelduð vara sem þróuð er og sérframleidd fyrir viðkomandi. Framleiðsluvörur Reykjagarðs eru seldar til verslana og viðskiptavina um allt land. Megnið af framleiðslunni fer ferskur á markað og mikið lagt upp úr gæðum og ferskleika. Þannig líður oft á tíðum innan við sólarhringur frá því að slátrun hefst að morgni þar til fullunnin vara er kominn inn á gólf viðskiptavinar á höfuðborgarsvæðinu að morgni næsta dags.
 
Í hverri viku er um 50.000 fuglum slátrað í Reykjagarði á Hellu. Árleg framleiðsla jafngildir u.þ.b. 14-15 milljónum máltíða og má því segja að á hverjum degi árið um kring snæði u.þ.b. 40 þúsund Íslendingar máltíð, sem byggja á starfseminni á Hellu. Enda er slagorð Holta – „grunnur að góðri máltíð“.
 
Fyrirtækið hefur mótað og hrint í framkvæmd stefnu um samfélagslega ábyrgð þar sem áhersla er lögð á að starfsemin sé í sátt við samfélag og umhverfi. Sem dæmi um slíkt er að húsdýraáburður sem fellur til í búskapnum er nýttur til áburðar hjá bændum eða til landgræðslu. Þeim hluta afurða sem ekki henta til manneldis er svo ýmist ráðstafað í loðdýrafóður, eða til Orkugerðarinnar þar sem framleitt er áburðarmjöl sem nýtt er m.a. hjá Hekluskógum og Landgræðslu ríkisins, en fitan nýtt til orkuframleiðslu í verksmiðjunni og flutt út til framleiðslu á lífdíesel.
 
Staðsetning starfseminnar í miðju öflugs matvælaframleiðsluhéraðs hentar vel. Því gera framtíðaráform Reykjagarðs ráð fyrir frekari uppbyggingu sláturhúss og vinnslu á Hellu og alifuglabúskapar í sunnlenskum sveitum.
 
Fleiri fréttir umfjallanir um fyrirtæki í Rangárþingi ytra má finna í nýjasta fréttabréfi sveitarfélagsins: https://www.ry.is/is/frettir/frettabref-mars-2021
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?