Sameiginleg yfirlýsing vegna heilsugæslu HSU í Rangárþingi

Í kjölfar íbúafundar á Hvolsvelli þann 11. janúar s.l. ákvað forstjóri HSU að áríðandi væri að svara kalli sveitarstjórnar og íbúa um samráð varðandi útfærslu þjónustunnar. Mikilvægt er að kynna sveitarstjórnum núverandi skipulag, dreifingu mönnunar á starfstöðvar, eflingu þjónustunnar síðustu ár og hugmyndir varðandi útfærslu á þjónustunni sem rúmast innan fjárlaga. Hlutverk heilsugæslu í heilbrigðisumdæmi Suðurlands er skýrt. Það er fagleg og rekstrarleg skylda HSU að skipuleggja almenna heilbrigðisþjónustu og nýta fjármuni til heilbrigðisþjónustu sem best þannig að þörf allra íbúa fyrir þjónustu sé uppfyllt.

 

Haldnir voru upplýsinga- og samráðsfundir, þann 21. janúar, 28. janúar og 1. febrúar 2016, framkvæmdastjórnar HSU með fulltrúum sveitarstjórna Ásahrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra. Það er sameiginleg niðurstaða fundanna að:

 

  • Öflug  heilsugæsla er ein af grunnstoðum samfélagsins. Í Rangárþingi er rekin ein heilsugæsla á tveimur starfstöðvum, á Hellu og á Hvolsvelli. Á heilsugæslunni í Rangárþingi er full mönnun lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra starfsmanna og biðtími eftir þjónustu með því stysta sem þekkist á landinu.
  • Af hálfu HSU var sú tilraun gerð á Hvolsvelli frá miðjum nóvember 2015 að hafa opið þrjá daga í viku í stað fimm. Tilgangurinn var að reyna til hálfs árs þá breytingu á starfseminni til að efla heimahjúkrun og nýta enn betur fulla mönnun lækna við stöðina.
  • Á íbúafundi á Hvolsvelli sem haldinn var hinn 11. janúar 2016 kom fram skýr krafa um að HSU dragi þessa tilraun til baka og hafi áfram opið alla virka daga á heilsugæslustöðinni á Hvolsvelli.
  • Endurskoðun opnunartíma starfstöðvar heilsugæslunnar á Hvolsvelli skal nú flýtt og í samráði við sveitarstjórnir í Rangárvallasýslu og leggur forstjóri HSU til að því verkefni ljúki og fyrra fyrirkomulag afgreiðslutíma taki gildi 16. febrúar 2016, þannig að opið sé fimm daga vikunnar á Hellu og Hvolsvelli.
  • Sumarlokanir verða áfram eins og verið hefur, til skiptis á hvorri starfstöð fyrir sig.
  • Sveitastjórnir Rangárþings og stjórnendur HSU munu halda fund 10. febrúar 2016, til að kynna skipulag þjónustunnar á báðum starfstöðvum. Kynning á aðgengi íbúa að þjónustunni verður efld.
  • Dagdvalarúrræði aldraðra hjá sveitarfélögunum í Rangárþingi má efla. Áfram skal unnið að aukinni samvinnu félagsþjónustu sveitarfélaganna við heimahjúkrun HSU og leita skal leiða til að efla enn frekar samvinnu í dagdvalarúrræðum sveitarfélaganna við aldraða.
  • Nýjungar í útfærslu og skipulagi heilbrigðisþjónustu eru til skoðunar til viðbótar við núverandi þjónustu. HSU vinnur nú að áætlun um útfærslu fjarheilbrigðisþjónustu í umdæminu öllu og mun kynna sveitarstjórnum lausnir í að veita sérhæfða heilbrigðisþjónustu í heimabyggð, ef fjárveiting fæst til verkefnisins.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?