Samþykktir frá fundi Sveitarstjórnar Rangárþings ytra 1. mars 2012

Hvamms- og  Holtavirkjanir í neðri hluta Þjórsár

Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti lýsingu að deiliskipulagi Hvamms- og Holtavirkjunar á fundi sínum 1. mars s.l. Þessi samþykkt er lýsing á vinnu við deiliskipulagsvinnu en framkvæmdaleyfi verður veitt þegar skipulagsferlinu er lokið og öllum samningum aðila hvað varðar framkvæmdirnar. Einnig er framkvæmdaleyfi háð ákvörðunum stjórnvalda er varðar rammaáætlun. Fulltrúar sveitarfélagsins hafa fundað með Landsvirkjun og lagt áherslu á að unnið verði að úrbótum á vegakerfi sem tengist fyrirhuguðum virkjunum. Lögð er áhersla á varanlegt slitlag á efri hluta Landvegar og tengingu inn  á bundið slitlag á hálendinu, þannig að hægt verði að taka við þeirri auknu umferð sem verður um Landveg með tilkomu brúar yfir Þjórsá fyrir ofan Búðafoss og með vegtengingu inn á Landveg. Einnig að komið verði á bundnu slitlagi á Árbæjarbraut og Hagabraut vegna framkvæmdanna. Rík áhersla er lögð á að Landsvirkjun hafi samráð  við alla landeigendur og full sátt náist er varðar aðkomuvegi að virkjunum og að samningum verði hraðað við landeigendur ef þeim er ekki lokið.

Landsmót hestamanna 2014 á Gaddstaðaflötum

Samningar standa yfir er varðar landsmót 2014  og vonast er að þeim ljúki sem fyrst. Á fundi hreppsnefndar 1. mars s.l.  var samþykkt tillaga Á-lista um að unnið verði deiliskipulag á landi sveitarfélagsins á svæðinu. Það er gert til að hægt sé að vinna skipulega að uppbyggingu á svæðinu og til að skapa fallega umgjörð um svæðið. Gera þarf ráð fyrir útivistarsvæði fyrir íbúa, hesthúsabyggð og aðstöðu fyrir mótshald og hátíðir. Skipulagsleysi hefur komið í veg fyrir uppbyggingu hesthúsa á Hellu og hafa lóðir ekki verið lausar til úthlutunar í mörg ár. En með deiliskipulagi þá skapast grundvöllur fyrir að taka slík mál upp og nauðsynlegt þar sem margir hafa atvinnu af hestamennsku í sveitarfélaginu og helstu knapar landsins eru meira og minna búsettir á Suðurlandi. Mót og hátíðir á  Gaddstaðaflötum styrkja einnig þá þjónustu sem er verið að bjóða innan sveitarfélagsins og nágrenni þess. Þar má nefna fjölda gistimöguleika, s.s. tjaldsvæði og lúxus hótel, veitingastaði, golfvöll, Heklusetur, handverkshús, sundlaugar, íþróttahús á Hellu Laugalandi og í Þykkvabæ og ýmsa þjónustu og verslanir.

Skipulagsmál

Mörg skipulagsmál og byggingarmál hafa verið á dagskrá hreppsnefndar að venju. Þar er verið  að skipuleggja nýbýli í dreifbýlinu og einnig húsbyggingar vegna uppbyggingar á atvinnustarfsemi. Forsenda þróunar sveitarfélags  er að fólk vilji setjast að og byggja upp og er það greinilegt að margir velja þann kost að byggja upp í Rangárþingi ytra. Sveitarfélagið á mikið af sumarhúsalóðum og landi sem þarf að kynna meira fyrir fólki þannig að hægt sé að koma því landi í nýtingu og koma þannig enn meira til móts við fólk sem vill  byggja upp og setjast að í sveitarfélaginu eða eyða sínum frítíma á svæðinu.

Mötuneytismál grunnskólanna

Skólastjórum grunnskólanna var falið að senda sveitarstjórn tillögur um hvort og hvernig mætti hagræða í rekstri mötuneytanna. Á sveitarstjórnarfundi 1. mars s.l. var lögð fram hugmynd skólastjóranna um að allur matur yrði matreiddur á Laugalandi, en svo ekið með hann á Hellu.  Á fundinum var formanni fræðslunefndar, fulltrúa D-lista í fræðslunefnd og sveitarstjóra falið að skoða þessa tillögu betur og kanna einnig fleiri leiðir í samráði við forstöðumenn. Þess ber að geta að engar ákvarðanir hafa verið teknar um málið þó að þessi tillaga hafi borist sveitarstjórn. 

Þjónusta við börn

Börn á  leik- og grunnskólaaldri glíma við talerfiðleika af ýmsum toga. Í leikskólunum og grunnskólunum eru samtals 49 börn (frá bæði Ásahreppi og Rangárþingi ytra) sem þurfa á faglegri aðstoð talmeinafræðings að halda. Um helmingur þeirra hefur fengið greiningu hjá talmeinafræðingi, en hinn helmingurinn er annaðhvort í greiningarferli eða í þörf skv. mati sérkennara skólanna. Þjónusta talmeinafræðings hefur ekki staðið til boða í sveitarfélaginu og hafa því foreldrar þurft að keyra með börnin til Reykjavíkur, með ærnum tilkostnaði, til að sækja sér þjónustu talmeinafræðings. Á hreppsnefndarfundi þann 1. mars samþykkti sveitarstjórn tillögu Á-lista um að ráða talmeinafræðing í hlutastarf. Hólmfríður Árnadóttir, talmeinafræðingur á Selfossi, hefur verið sveitarstjórn til ráðgjafar um þróun starfsins og stefnt er að því að talmeinafræðingur taki til starfa á haustmánuðum. Líklegt er að 40% starfshlutfall nægi til að sinna börnunum.

Guðfinna þorvaldsdóttir, Oddviti Rangárþings ytra

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?