Tilkynning vegna nýrrar heimasíðu

Nú hefur ný heimasíða Rangárþings ytra verið opnuð en svohljóðandi var bókað á 20. fundi hreppsnefndar þann 9. júní 2011:

„Sveitarstjórn samþykkir tillögu skýrsluhöfunda um að ganga að tilboði Emstra ehf.  Sveitarstjóra er falið að ganga frá samningi og móta stefnu varðandi ritstjórn síðunnar í samvinnu við formann atvinnu- og menningarmálanefndar.“

Fram að opnun heimasíðu hefur verið unnið að gerð hennar með Emstrum ehf.  Kostnaður vegna gerðar nýrrar heimasíðu er kr. 270.000,- samkvæmt tilboði en efnisinnsetning hefur annars verið unnin í sjálfboðavinnu fram á þennan dag.  Vegna þessa fyrirkomulags hefur innleiðing nýrrar síðu tekið lengri tíma en ella.  Reynt hefur verið að halda kostnaði í algjöru lágmarki.  Vonandi verður viljinn tekinn fyrir verkið.

Gamla heimasíðukerfið var orðið úrelt, óskilvirkt og erfitt í meðförum fyrir þá sem sáu um að uppfæra síðuna.  Það bitnaði óumdeilanlega á gæðum síðunnar.  Kerfið var einnig kostnaðarsamt í rekstri en fastur rekstrarkostnaður vegna hýsingar og þjónustu gamla kerfisins var um 15.600,- kr. á mánuði.  Þessi fasti rekstrarkostnaður fer nú niður í kr. 900 á mánuði við upptöku nýs kerfis.  Við breytt fyrirkomulag sparast strax á fyrsta heila ári um 175.000,- kr.  Þetta er liður í hagræðingaraðgerðum jafnhliða uppfærslu kerfis til nýrra tíma.

Allar fundargerðir þessa kjörtímabils eiga að vera aðgengilegar á síðunni nú.  Eldri fundargerðum verður bætt við jafnt og þétt en töluverð vinna er fólgin í innsetningu efnis.  Reynt hefur verið að setja inn grunnefni í hverjum málaflokki en fyllt verður í eyður jafnt og þétt.


Helstu atriði sem höfð voru að leiðarljósi við gerð nýju síðunnar:

 • Síðan á að vera innihaldsrík, án þess þó að vera efnislega viðhaldsfrek fyrir þá sem uppfæra hana.  Heimasíða sveitarfélags er ekki fjölmiðill í þeim skilningi en á að veita sem bestar upplýsingar til handa skjólstæðingum þess um lögboðna starfsemi.  Reynt hefur verið að feta þessa slóð.
   
 • Ekki var aðkeypt sérstök þjónusta vegna útlits og grafíkvinnslu en bæta má útlit síðunnar smátt og smátt þegar hún verður komin í sína "lokamynd" ef svo má segja.  Það verður að skoðast þegar svokölluðum "aðlögunartíma" er lokið.  Þegar þetta er skrifað er ein mynd komin í haus síðunnar en hún var tekin af Sólveigu Stolzenwald.  Sólveig leyfði notkun myndarinnar á síðunni.  Óskað er eftir fallegum myndum úr sveitarfélaginu til að nýta í haus síðunnar.  Sendið myndir á póstfangið rangytra@gmail.com
   
 • Mikil áhersla er á að notendur síðunnar séu tiltölulega fljótir að finna efni sem leitað er að í hvert sinn.  Þetta er gert með því að skipta síðunni upp í málaflokka.  Sá sem vill finna efni um íþróttir velur málaflokkinn "Íþrótta- og tómstundamál" og sá sem vill finna menningartengt efni velur málaflokkinn "Menningarmál" o.s.frv.  Málaflokkar eru ofarlega fyrir neðan haus síðunnar.
   
 • Ofarlega á forsíðu gefur að líta fjóra stóra "takka" en lengst til vinstri er svokölluð "'Íbúagátt".  Næst gefur að líta takka sem vísar á "Fræðslumál" en sá málaflokkur er langstærstur í rekstri sveitarfélaga.  Næstu tveir takkar eru helgaðir ferðamönnum, innlendum og erlendum.  Þannig er reynt að gera verslun og þjónustu í sveitarfélaginu hátt undir höfði.  Notendur eru hvattir til að senda inn ábendingar um efni.
   
 • Rétt er að gera sérstaka grein fyrir Íbúagáttinni, en þegar þangað er komið er hægt að velja nokkrar undirsíður.
  • Þar gefur að líta auglýsingar um laus störf, lausar lóðir og skipulagsbreytingar. 
  • Settar verða inn allar gjaldskrár sem sveitarfélagið miðar við í hvert sinn. 
  • Hugmyndagáttin er þarna á sínum stað en notendur eru hvattir til að koma ábendingum og hugmyndum á framfæri á þeim vettvangi. 
  • "Mitt Rangárþing ytra" er sett upp á síðunni og því gefið svæði.  Þessi liður er í mótun en kominn vel á veg.  Þar verður hægt að fylla út umsóknir rafrænt og fylgjast með einstökum málum í rauntíma.  Gera má ráð fyrir því að hægt verði að setja upp skoðanakannanir á þessu svæði.  Þetta verður spennandi viðbót.
  • Einnig er þarna hlekkur inn á umsóknir og eyðublöð sem ekki er hægt að koma fyrir í rafrænni skráningu eðli máls samkvæmt.  T.d. þegar umsókn krefst handskrifaðrar undirskriftar.
    
 • Vinstra megin á síðunni eru takkar sem eiga að virka sem flýtihnappar á algeng mál sem leitað er að.  T.d. Sorpmál, Skipulagsmál, Fundargerðir og fleira.  Hægt er að breyta þessu og bæta við eftir þörfum.
   
 • Hægra megin á síðunni er svokallað viðburðadagatal og birtast næstu viðburðir fyrir neðan dagatalið jafnóðum.  Allir geta skráð inn viðburði og er fólk hvatt til að skrá inn viðburði jafnt og þétt!  Þannig kemur viðburðadagatalið til með að virka sem best og vera lifandi og skemmtilegt.  Til að skrá viðburði inn er farið neðst á síðuna en þar er takki til þess gerður að taka á móti skráningum.  Ferlið skýrir sig sjálft þegar smellt er á takkann.
   
 • Neðst á síðunni eru annars takkar sem settir voru inn sem tillögur.  Hægt er t.a.m. að skoða auglýsingaritið Búkollu eftir nokkurt hlé.  Þessu svæði er svo hægt að breyta eftir hentisemi þegar reynsla kemst á.
   
 • Annars er nægt pláss á síðunni til viðbóta.
   

Stefnt er að því að bæta við nýjungum þegar þær eru tilbúnar.  S.s. myndasvæði, póstlista og mögulegri útgáfu fréttabréfs tengdum honum.  Reynt verður að koma á fót vef í líkingu við "Betri Reykjavík" en kostnaðarmeta þarf slíkt.

Mikilvægt er að notendur síðunnar geri sér grein fyrir því að henni er ætlaður ákveðinn aðlögunartími og hún er langt frá því að vera í endanlegri mynd nú.  Þetta er meðvituð ákvörðun en gert er ráð fyrir því að eigendur síðunnar(íbúar sveitarfélagsins) fái að koma að fullnaðarmótun hennar.

Íbúar Rangárþings ytra eru hvattir til að senda inn athugasemdir og ábendinar varðandi síðuna og efni hennar á netfangið rangytra@gmail.comAthugasemdir geta verið af öllum toga. 

Reynt verður að bregðast við góðum ábendingum og koma góðum hugmyndum og/eða nýjungum í framkvæmd á síðunni jafnt og þétt.  Í því sambandi þarf m.a. að líta á almennt umfang og kostnað við innleiðingu.  Góðar hugmyndir, sem jafnframt eru einfaldar og ódýrar, eiga því meiri möguleika á að verða að veruleika heldur en þær sem eru flóknar og dýrar í framkvæmd.

Vonandi leggst ný heimasíða vel í notendur hennar og megi hún dafna vel í netheimum.


 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?