Vel sóttur íbúafundur um skipulagsmál í Rangárþingi ytra

Þriðjudaginn 19. janúar s.l. var haldinn íbúafundur um skipulagsmál í Rangárþingi ytra. Um 100 manns sóttu fundinn í gegnum Facebook og ZOOM og bárust spurningar í gegnum báða miðla. Haraldur Birgir skipulags- og byggingafulltrúi kynnti þau skipulagsáform sem hafa verið í vinnslu eða eru í vinnslu.

Upptöku frá fundinum má nálgast hér: https://fb.watch/39kY8QXTMT/

Þau skipulög sem fjallað var um má nálgast hér: https://www.ry.is/is/stjornsysla/skipulagsmal/skipulagsmal-til-kynningar

Fundurinn þótti takast virkilega vel og má búast við því að þetta verði fastur liður í framtíðinni.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir þær spurningar sem bárust á fundinum og svör við þeim.

Ef íbúar óska eftir nánari skýringum á einhverjum þeim spurningum sem komu fram þá skal hafa samband við Harald Birgi skipulags- og byggingafulltrúa og við munum þá skýra þær betur hér á vefnum ásamt því að svara viðkomandi. Netfangið er birgir@ry.is .

Eftirtaldir svöruðu spurningum:

HBH: Haraldur Birgir Haraldsson, skipulags og byggingafulltrúi
ÁS: Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri.
THT: Tómas Haukur Tómasson, forstöðumaður þjónustumiðstöðvar.
MBG: María Björk Gunnarsdóttir, starfsmaður EFLU.

 

Þjóðvegur 1

Er fyrirhugað að hafa gangbrautarljós yfir þjóðveg 1?

Svar BH: Já, rætt hefur verið um þörf á gangbrautarljósum við vinnu miðbæjarskipulagsins og var horft til staðsetningar á móti Kanslaranum eða á núverandi gangbraut við hringtorgið á móts við Miðjuna. Ákvarðanir verða teknar í kjölfar væntanlegs fundar með Vegagerðinni, en þeir fara með veghald á Suðurlandsveginum.

Er ekki ástæða til að setja upp skilti (hraðatakmörkun) á leiðinni frá Suðurlandsvegi að Gaddstaðaflötum(Reiðhöll) ansi oft keyrt hart á þeim kafla

Svar BH: Vegna ábendingar íbúa var samþykkt í skipulags- og umferðarnefnd á fundi þeirra þann 19.8.2019, og með staðfestingu Byggðaráðs í umboði sveitarstjórnar á fundi þeirra þann 22.8.2019 að hámarkshraði yrði lækkaður úr 50 km/klst niður í 30 km/klst. Þetta er eitt annarra atriða sem bíður staðfestingar lögreglunnar á Suðurlandi og birtingar í B-deild stjórnartíðinda til staðfestingar.

 

Leynir

Liggur deiliskipulag fyrir í Leyni?

Svar BH: Deiliskipulagið fyrir Leyni hefur lokið skipulagslegu ferli sínu og bíður staðfestingar með auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda.

Er búið að samþykkja deiliskipulag í Leyni 2 - 3

Svar BH: Deiliskipulag fyrir Leyni 2 & 3 var samþykkt endanlega í sveitarstjórn Rangárþings ytra þann 12.11.2020.

Finnst Rangárþingi ytra ekki ástæða til að bíða með aðalskipulagsvinnu vegna Leynis í ljósi niðurstöðu auðlindarnefndarinnar?

Svar BH: Nei, skipulagið er talið geta haldið sínu striki án tengsla við úrskurð Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Skipulagsstofnun þarf að endurskoða álit sitt á því hvort framkvæmdir á svæðinu skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, en framkvæmdir eru að öðru leyti háðar heimildum í deiliskipulagi.

Þó gerðar séu athugasemdir við skipulagið?

Svar BH: Athugasemdir voru gerðar í ferli skipulagsferils beggja sviða, aðalskipulagsbreytingar og deiliskipulags. Það er álit sveitarstjórnar að búið sé að taka tillit til allra fram kominna athugasemda og það hefur fengist staðfest með afgreiðslu skipulagsstofnunar um heimild til endanlegrar afgreiðslu skipulaganna. Athugasemdir þær sem gerðar voru í úrskurði Úrskurðarnefndarinnar áttu ekki við skipulagið eða skipulagsferlið heldur var sett út á að álit skipulagsstofnunar á að framkvæmdir skildu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum væri jafnvel ranglega metið.

Hvaðan hefur skipulags- og byggingarfulltrúi upplýsingar um að deiliskipulagið sé staðfest af hálfu Skipulagsstofnunar?

Svar BH: Með sama hætti og með önnur skipulagsmál sem þarfnast endanlegrar staðfestingar skipulagsstofnunar. Í þessu tilfelli með bréfi dagsettu 9. desember 2020 þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við að birt verði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild stjórnartíðinda að undangengnum smávægilegum lagfæringum á gögnum.

Í viðtali við mbl komu fram áhyggjur skipulagsfulltrúa af langlundargeði Loo Eng Wah. Hvergi var minnst á íbúa og hvaða þeim fyndist um þessi mál.

Svar BH: Í viðtalinu kom fram að skipulagsfulltrúi gat ekki fullyrt að framkvæmdaraðili héldi áfram áformum sínum ef endanleg niðurstaða yrði sú að framkvæmdir skildu háðar mati á umhverfisáhrifum. Það verður framkvæmdaaðili að svara fyrir sjálfur. Hér voru alls ekki um áhyggjur skipulagsfulltrúa að ræða í þeim efnum. Það er rétt að í viðtalinu var ekki talað um íbúa og hvað þeim finnst um þetta mál enda liggur það fyrir eins og komið hefur fram í ferli skipulagsins.

Hefur sveitarstjórnin rætt við hagsmunaaðila í nágrenni Leynis þar sem skv. ÍSOR hafa vatnsból þeirra verið dæmt ónýt vegna fráveituskolps frá Leyni.

Svar BH: Skil ekki þessa staðhæfingu og er hún alls ekki í samræmi við álit ÍSOR heldur er í skýrslu ÍSOR fjallað um þörfina á að endurskoða allar fráveitur á svæðinu.

Hafið þið verið í sambandi við hagsmunaaðila í kringum Leyni varðandi ónýtu vatnsbólin

Svar BH: Ekki er vitað af neinum ónýtum vatnsbólum á svæðinu enda ef vatnsból einkaaðila á svæðinu eru ónýt þá ber þeim að sjá til þess að þeim verði komið til betri vegar. Sveitarstjórn hefur mestar áhyggjur af vatnsverndarsvæði því sem tilheyrir vatnsveitu sveitarfélagsins og hefur með aðkomu ÍSOR og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands í ferli skipulagsins leitað allra leiða til að koma í veg fyrir mengun grunnvatnsins eins og þekkt er.

 

 

 

 

Sandurinn

Varuð til hægri regla er í gildi m.a. út frá Bergöldu og Breiðöldu og fleiri götum þessi regla er sjaldan virt stendur til að endurskoða það þegar byggða stækkar til austurs?

Svar BH: Samþykkt var á fundi Skipulags- og umferðarnefndar þann 10.12.2018 að biðskylda yrði sett á allar götur sem tengjast inn á Eyjasand. Á fundi nefndarinnar þann 22.6.2020 var farin yfirferð á þessum hlutum í þéttbýlinu á Hellu og lagt til við sveitarstjórn að fyrri samþykkt yrði framfylgt. Sveitarstjórn hefur staðfest þessar tillögur og er beðið eftir uppsetningu.

Já og stendur ekki til að koma með hraðahindrun af þeirri götu (Eyjasandinum) sem á að virða hægri regluna? Mikil umferð þarna og alltof hratt ekið þarna.

Svar BH: Já, samþykkt var á sama fundi og sagt er frá hér að ofan að settar yrðu hraðahindranir á Eyjasandinn.

Er eitthvað fyrirhugað til að hægja á umferð um Eyjasand enda er farið ansi hratt þar?

Svar BH: Já, samþykkt var að settar yrðu hraðahindranir á Eyjasandinn. Sjá svar hér ofar.

Hvernig verður aðgengi að leikvellinum í ölduhverfinu?

Svar BH: Mjög gott aðgengi er að svæðinu að teknu tilliti til gangandi og hjólandi umferðar en bæta mætti aðgengi akandi fólks með bílastæðum jafnvel við spennistöðina við Langöldu. Það þarf að ræða betur.

Hvernig verður aðgengi að leikvellinum í ölduhverfinu? og hvernig verður með reiðveginn sem er núna meðfram því svæði/Baugöldunni

Svara BH: Sjá svar varðandi aðgengi hér ofar en með reiðveginn að þá liggur fyrir hugmynd um að hann verði fjarlægður af skipulagi svæðisins og færður upp að ofanbyggðaveginum.

Væri til í að heyra hvaða áform eru með gerð göngustíga á sandinum

Svar THT: Stefnt er á að tengja með göngustígum hverfið á sandinum við eldri hverfi Hellu. Hluti af því er að reiðstígar víki og verði göngustígar í staðinn.

Hvenær verður nýja ölduhverfið klárt til að fara byggja þar?

Svar ÁS: Við erum með það verkefni á bið fram undir vor en munum þá taka stöðuna aftur og ákveða hvort við förum af stað í sumar og haust. Það á að vera hægt að fara í að ljúka hönnun og síðan framkvæmdir við lagnir og götukassa með tiltölulega stuttum fyrirvara þegar ákvörðun liggur fyrir.

í framhaldi af gangstígaspurningu - Er gert ráð fyrir gangstétt meðfram Eyjasandinum og hvenær er ráðgert að hún komi?

Svar THT: Byrjað er á því að vinna gangstíginn sem liggur með Eyjasandi frá Brúnöldu yfir að Sporðöldu. Vonast er til að ljúka þeim stíg á vormánuðum.

Aftur vil ég spyrja hvernig aðgengi er hugsað að nýja leikvellinum, bæði varðandi gangstéttir og einnig fyrir aðra sem koma á leikvöllinn akandi og þá spurning hvort það verði bílastæði

Svar BH: Mjög gott aðgengi er að svæðinu að teknu tilliti til gangandi og hjólandi umferðar en bæta mætti aðgengi akandi fólks með bílastæðum jafnvel við spennistöðina við Langöldu. Það þarf að ræða betur.

reiðvegur og göngustígur? fyrir aftan baugölduna verður reiðstígurinn áfram þarna? hvar bætist þessi göngustígur við?

Svar BH: Göngustígur er sýndur meðfram reiðstígnum á yfirliti skipulagsins. Reiknað er með að reiðstígur verði felldur út og færður út að mörkum hverfisins.

 

Miðbæjarskipulag

Hvað eigið þið við um afþreyingu við menningarsalinn, hvað felst í því?

Svar MBG: Torgið býður upp á möguleika fyrir uppákomum tengd hátíðisdögum, bæjarhátíðum, starfi eldri borgara og starfsemi í safnaðarheimilinu svo eitthvað sé nefnt. Á torginu verða innviðir s.s. bekkir, borð, hjólastæði og gróður með skjólveggjum til skjólmyndunar.

Leikvellir almennt

Er fyrirhugað að setja fleiri leikvelli á Hellu?

Svar BH: Í skipulaginu er gert ráð fyrir leiksvæðum í Ölduhverfi, við Ártún, á útivistarsvæðinu neðan við Nes og á skólasvæðinu ásamt leiksvæðinu á leikskólanum. Ef tillagan að leiksvæði norðan við blokkina verður að veruleika er þar um að ræða viðbót líka.

Er ekki þörf á fleiri leikvöllum í þorpinu með fjölgun barnafjölskyldna? Sem og endurnýjun tækja.

Svar BH: Það má alltaf gera betur. Heilsu-, íþrótta- og tómstundanefnd hefur gert úttekt á ástandi núverandi leikvalla að undanskildum þeim sem tilheyra leik- og grunnskóla. Ekki hefur verið rætt um að fjölda leikvöllum umfram það sem nú þegar hefur komið fram.

Leikvöllurinn í Ártúninu telst varla með :) Það mætti byrja með uppbyggingu á svæðunum sem eru til staðar ;)

 

Spurning frá einum 12 ára. Er eitthvað að frétta af skatepark hugmyndum?

Svar ÁS: Já, verið er að skoða og meta tilboð og staðsetningu slíkra hluta. Fyrstu hugmyndir voru nokkuð kostnaðarsamar en það eru möguleikar í stöðunni.

Ýmsar spurningar

Auglýsið þið alltaf í mbl?

Svar BH: Já, öll skipulagsmál sem þarfnast auglýsingar í víðlesnu dagblaði sem gefið er út á landsvísu eru auglýst í Morgunblaðinu.

Telst Þykkvibær ekki þéttbýli? er til sambærilegt kort af Aðalskipulagi Þykkvabæjar?

Svar BH: Sjá gr. 2.1.3. í greinargerð aðalskipulags Rangárþings ytra 2016-2028: Þéttbýlasti hluti byggðar í Þykkvabæ er skilgreindur sem þéttbýli. Gerð er breyting á afmörkun þéttbýlis í gildandi aðalskipulagi þar sem mörkin eru færð nær miðju svæðisins. Fjallað er um landnotkun þar með dreifbýlinu en Þykkvibær er „elsta sveitaþorp á Íslandi“. Stefna sveitarfélagsins er að halda í þá ímynd en heimila rúmar byggingarheimildir eins og í dreifbýlinu.

Hvað segið þið með að merkja botngötur með 30 km hámarkshraða?

Svar BH: Það hefur ekki verið rætt ítarlega í skipulags- og umferðarnefnd en ég tel það ekki gefa góða raun að merkja eingöngu hámarkshraða á slíkum götum, heldur þyrfti að ganga lengra til að lækka niður hraða.

Vantar ekki gangbraut frá gamla bakaríi yfir í skólann?

Svar BH: Verið er að skoða með gangbraut yfir Þingskála við gatnamót Dynskála. Sú gangbraut myndi því tengjast núverandi gangstíg að skólasvæðinu. Þetta er þó allt í endurskoðun vegna hugmynda um uppbyggingu á skólasvæðinu.

Hvaða áform eru uppi um uppbyggingu sunnan Suðurlandsvegar á móts við Miðjuna, þar sem gamla verkstæðið og pakkhúsið standa í dag

Svar ÁS og BH: Skipulagsnefnd eða Sveitarstjórn hefur ekki fengið veður af öðrum áformum en kynnt voru með deiliskipulagi fyrir svæðið frá árinu 2017, þar sem gert var ráð fyrir uppbyggingu á þjónustu fyrir ferðamenn ásamt verslunar- og þjónustustarfsemi, svo sem gististarfsemi í smáhýsum og eldsneytisafgreiðslu. Húsin standa á eignarlóðum og eigendur eru Hagar.

Er búið að ákveða skipulag á skólasvæðinu eða verður það lagt fyrir í íbúa og við fáum eitthvað um það segja ?

Svar ÁS: Nei, skipulagið er enn í umræðufasa og verður tekin ákvörðun um heildina með aðstoð arkítekta frá ARKÍS, sem valdir hafa verið til að koma með tillögur og skipuleggja svæðið með okkur. Haldinn hefur verið einn stór íbúafundur um málið og gert er ráð fyrir fleiri samráðsfundum um málið síðar. Hönnunarsamningur við ARKÍS gerir ráð fyrir að frumdrög, byggingar- og kröfulýsingar ásamt kostnaðaráætlun verði tilbúið fyrir 20. apríl n.k.

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?